Æ hvað þetta var eitthvað eftir bókinni.
Ráðherrarnir voru komnir upp að vegg vegna framgöngu sinnar í Icesave-málinu. Ráðherrar, sem þó ættu fremur að vera á bandi Íslands en annarra ríkja, urðu berir að því að reyna að fá Alþingi til að ábyrgjast erlendum ríkjum ótrúlegar fjárhæðir með þeirri aðferð að halda frá þingmönnum gögnum sem styðja málstað Íslands en ekki hinna erlendu ríkja. Álitum Íslandi í vil er stungið undir stól en óhagstæðum álitum hampað. Ofan á bætist að helsti talsmaður Icesave-ánauðarinnar, formaður vinstrigrænna, virðist ber að ósannindum sem hefði sett forsætisráðherrann, sem á löngum stjórnarandstöðuferli sparaði sjaldan afsagnarkröfurnar, í veruleg vandræði. Jafnvel á Íslandi nútímans, þar sem situr ríkisstjórn sem býr við nær algert aðhaldsleysi fjölmiðla, stefndi í fyrradag í að þessi mál yrðu ráðherrunum hættuleg.
Hvað gerist þá? Skyndilega birtist í Fréttablaðinu frétt, sem blaðið fékk af himnum ofan, þess efnis að tveir viðskiptavinir ríkisbankans Kaupþings, Björgólfsfeðgar, reyndu nú að semja við bankann um afslátt af skuld sinni við hann. Ráðherrar mæta í framhaldinu stóryrtir í fjölmiðla, þó einn þeirra taki það fram, án athugasemda fréttamanna auðvitað, að hann tali persónulega en ekki sem ráðherra, og þetta mál tekur þrjá fjórðu af öllum fréttum. Og í hvað fer hinn fjórðungurinn? Jú, þrátt fyrir ótal yfirlýsingar stjórnarliðsins um að utanríkismálanefnd muni skila sameiginlegu áliti um fyrirliggjandi fullveldisafsalstillögur um aðild að Evrópusambandinu, gerist það skyndilega að stjórnarmeirihlutinn afgreiðir tillögu sína úr nefndinni í algerum ágreiningi og skrifar ekki einu sinni allur fyrirvaralaust undir. Og þannig tekst meira að segja að búa til æsingafrétt þar sem áhyggjufullur fréttamaður, Björn Malmquist, hefur miklar áhyggjur að málið tefjist við það að einn þingmaður vinstrigrænna hafi tekið upp á því að vilja upplýsingar um málið. Aðrir fréttamenn fylgja á eftir og þessi eini þingmaður vinstrigrænna lendir á sakamannabekk þeirra. En enginn fréttamaður setur neitt í samhengi við úlfakreppu ráðherranna vegna Icesave-ánauðarinnar og Icesave-ósannindanna.
Nei, ósannindi ráðherranna og feluleikur þeirra með dýrmæt gögn, eru algerlega gleymd á fréttastofunum. Þar snýst nú allt um það hvað Björgólfsfeðgar hafi skuldað vegna kaupa sinna á Landsbankanum fyrir átta árum. Þó ætti að blasa við að það mál fer ekki neitt. Icesave-ánauðin, og þær aðferðir sem ríkisstjórnin notar til að festa landsmenn í henni, hún vofir hins vegar yfir þessa daga. Og það er ákaflega áríðandi fréttaefni. En með einföldu hókuspókus tókst að fá fréttamannaherinn allan til að gleyma því á augabragði.
Getur verið að einhverjir vinstrimanna vilji festa landsmenn í Icesave-ánauðinni til þess að koma í veg fyrir að hér geti framar orðið öflugt atvinnulíf sem stenst öðrum snúning – og til þess að hneppa allan fjöldann í fátæktar- og láglaunagildru, og ætli svo með hjálp álitsgjafa, fjölmiðlamanna og öskurhers að kenna öðrum um ástandið um alla framtíð? Að þeir ætli að reyna að sjá til þess að aldrei framar verði reynt að byggja hér upp atvinnulíf öflugs einkaframtaks? Að nú eigi að sjá til þess að héðan af verði það eignarhaldsfélög ríkisstjórnarinnar sem haldi atvinnulífi í greip sinni og aðrir þurfi að sitja og standa eftir áætlunum kommissara? Þessu hafa sæmilegir menn ekki viljað trúa, en það er verulega óþægilegt að verða vitni að því hvernig svonefndir ráðamenn Íslands hampa öllum þeim rökum sem Íslandi eru á móti, en hin „gleymast“ þegar gögn eru lögð fyrir alþingismenn.
Og þeim sem virðist alltaf vera leikur einn að afvegaleiða íslenska fréttamenn, væri slík óhæfa kannski óhugnanlega auðveld.