Í kosningabaráttunni talaði Borgarahreyfingin um að hún hefði ekkert fjármagn til baráttunnar en keppti við flokka er nytu stórfelldra ríkisstyrkja. Nú hefur Borgarahreyfingin fengið fjóra menn á þing og á þar með rétt á gríðarlegum fjárframlögum úr ríkissjóði. Að óbreyttum lögum má ætla að flokkurinn fái um 130 milljónir króna afhenta frá skattgreiðendum á fjögurra ára kjörtímabili. Í Morgunblaðinu í gær var rætt við Jóhann Kristjánsson kosningastjóra flokksins. Hann sagði peningana koma sér vel, nú gæti flokkurinn orðið sér úti um húsnæði og greitt þeim laun sem fram að þessu hefðu verið sjálfboðaliðar. Flokkurinn sé reyndar skuldlaus, en „við eigum þá þennan pening til ráðstöfunar“, segir Jóhann hæstánægður.
Með öðrum orðum, ef almennir borgarar ætla við næstu kosningar að taka sig saman og bjóða fram til þings, þá munu þeir, rétt eins og „Borgarahreyfingin“ nú, þurfa að keppa við fimm flokka, sem verða með fullar hendur af ríkisfé.
Borgarahreyfingin er búin að vera með menn á þingi í fjóra daga. Hún er strax komin í þá stemmningu að það sé ekkert að því að taka við hundruðum milljóna króna af ríkisfé og nota það í stjórnmálabaráttu. Alveg eins og hinir flokkarnir. Ætli forystumenn Borgarahreyfingarinnar hafi aldrei lesið niðurlag Dýrabæjar Orwells?
Hvers vegna sýnir flokkurinn nú ekki gott fordæmi og afþakkar þessa opinberu styrki? Það myndi setja verulega pressu á hina flokkana. Það er einfaldlega reginhneyksli að stjórnmálaflokkarnir úthluti sjálfum sér hundruðum milljóna króna af skattfé og noti peningana til að halda sjálfum sér við kjötkatlana en loka aðra úti. Þar eiga allir flokkar sök að máli, þó sumir fagni reyndar þessum hneykslanlegu lögum meira en aðrir.
Tók einhver eftir því að einhver fréttamaður spyrði hvort flokkurinn myndi þiggja ríkisstyrki þegar hann sjálfur væri kominn að kjötkötlunum? Voru það kannski jafn margir fréttamenn og spurðu Borgarahreyfinguna um kröfu hennar um að 7% kjósenda gætu knúið fram þingrof? Hvað fékk Borgarahreyfingin eiginlega margar gagnrýnar spurningar frá íslenskum fréttamönnum í kosningabaráttunni?
S amtök iðnaðarins eru áköf áróðurssamtök fyrir pólitísku baráttumáli, inngöngu Íslands í Evrópusambandsins. Við því væri svo sem fátt að segja, ef samtökin væru ekki fjármögnuð með nauðungargjöldum allra þeirra sem stunda iðnað á Íslandi, og hafa reyndar ítrekað reynt að komast undan þeirri gjaldtöku en án árangurs. Þrátt fyrir þetta, að vera rekin fyrir nauðungargjöld, hafa forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins ekki hikað við að beita því fé af miklum þunga í Evrópusambandsbaráttuna. Áberandi auglýsingar, þaulhugsaðar skoðanakannanir með leiðandi spurningum, málþing með vel völdum fyrirlesurum og svo framvegis, hefur dunið á landsmönnum árum saman og allt fjármagnað með nauðungargjöldum.
En í gær báðust þau loksins afsökunar. Fólki var líka nóg boðið. Nú höfðu Samtök iðnaðarins gengið of langt. Nú höfðu þau birt auglýsingu sem virtist sýna sjúkling hjá skottulækni, og var tilgangurinn að hvetja fólk til að leita til fagmanna. Félag fæðingarlækna ályktaði og Samtök iðnaðarins báðu „konur og starfsfólk heilbrigðisstétta“ innilega afsökunar á „mistökum“ sínum.
Nú gátu þau beðist afsökunar, en Evrópusambandsáróðurinn mun halda áfram skefjalaust fyrir nauðungargjöld. Og ekki mun Samfylkingin taka í mál að iðnaðarmálagjaldið verði afnumið.