Helgarsprokið 8. mars 2009

67. tbl. 13. árg.

F rjálshyggjumenn unnu umræðu síðustu áratuga um atvinnufrelsi og einkaframtak. Stjórnmálamenn fylgdu með á sinn hátt og töluðu margir eins og þeir vildu frelsi og framtak einstaklingsins um leið og þeir fjölguðu ráðuneytum, sendiráðum, jafnréttisfulltrúum og lýðheilsuverkefnum. Þótt ríkisbáknið hafi á sama tíma þanist út og forsjárhyggjan hafi verið í stórsókn á nýjum sviðum er ekki að undra að einhverjir telji frjálshyggjuna hafa gjörtapað nú þegar lífskjörin versna um heim allan. Það töluðu eiginlega allir eins og þeir vildu frjálsan markað en þeir sem þurftu að láta völd af hendi til að svo gæti orðið voru auðvitað tregir til þess.

En gefum okkur að allt fimbulfambið undanfarið um að kreppan sé fylgifiskur frjáls markaðar sé einfaldlega rétt. Skrifum jafnvel ríkisábyrgðina á innlánsreikningum eins og Icesave, seðlaprentunina og ódýra fjármagnið úr seðlabönkum og ríkisábyrgðir á fasteignalánum allt reikning frjáls markaðar. Setjum öll þessi ríkisafskipti á syndaregistur frjálshyggjunnar og látum sem hin miklu efnahagslegu áföll liðinna mánaða séu bein afleiðing frelsisins, eina uppskera frjálshyggjunnar.

Þá vaknar spurningin. Viljum við láta frelsið af hendi?

Vefþjóðviljinn svara þeirri spurningu hiklaust neitandi. Frelsið er ekki fullkomið kerfi þar sem niðurstaðan er ætíð öllum í hag. Vefþjóðviljinn hefur áður orðað þetta svo:

Frjálshyggjan – formleg réttindi eins og atvinnufrelsi og eignarréttur – er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt skilyrði fyrir góðu þjóðfélagi. Frjálshyggjan er engin trygging fyrir góðum árangri en hún opnar leiðina og gefur mönnum tækifæri til að reyna sig í viðskiptum við ókunnuga. Á þetta hafa frjálshyggjumenn sjálfsagt ekki lagt næga áherslu og fyrir vikið hljómar frjálshyggja oft eins og kerfi sem skila á ákveðinni niðurstöðu: hagvexti og stærri hamborgurum.

Frjálshyggjan er hins vegar alls ekki fullbökuð og skreytt hnallþóra sem markaðurinn mun sjá um að skera niður í bita handa hverjum og einum. Frjálshyggjan leggur aðeins til aðstöðuna og við getum aðeins vonað að fyrsta kakan verði svo góð eða vond að menn baki fleiri.

Frjálshyggjan snýst því ekki fyrst og fremst um hagsæld þótt hún sé jafnan fylgifiskur frelsis. Atli Harðarson heimspekingur telur að menn geti dregið þennan lærdóm af sögunni í bók sinni Af jarðlegum skilningi:

Stóra samfélagið er ekki skipulagt, þróun þess er ekki stjórnað. Það nær nú út yfir öll landamæri og er í vaxandi mæli alþjóðlegt. Hvað sem menn halda um stjórnmál innan einstakra landa eða héraða munu flestir sammála um að alþjóðaviðskipti stuðli að hagsæld og grundvöllur þeirra sé formlegar reglur um eignarrétt og samninga. Sumir halda að svokölluð alþjóðavæðing sé ný af nálinni en mestalla nítjándu öld var frjálshyggja ríkjandi stjórnmálastefna í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Á þessum tíma streymdu fjármagn og vinnuafl óhindrað milli landa og það var hægt að ferðast um Evrópu án vegabréfs. Vesturlönd þróuðust í átt að stóru samfélagi sem byggðist á reynsludyggðum og því stranga réttlæti sem Hume fjallar um og krefst þess að menn virði eignarrétt og standi við samninga. Aldrei fyrr né síðar hafa lífskjör fólks í þessum heimshluta batnað jafn mikið og aldrei hefur verið jafn lítið um stríð og blóðsúthellingar í Evrópu.

Frelsið, atvinnufrelsi og eignarréttur, er hins vegar umfram allt réttlætismál. Það er réttlætismál að menn fái að spreyta sig, finna kröftum sínum farveg. Hagsældin er bara bónus, ekki alveg óvæntur.

Það eru annars ýmis ráð nefnd um þessar mundir til að minnka byrðar hvers skattgreiðenda af þeirri skefjalausu nýfrjálshyggju að ríkið hafi ábyrgst Icesave reikninga Landsbankans. Menn geta auðvitað talað og talað. Hér á ritstjórn Vefþjóðviljans láta menn hins vegar verkin tala. Helmingur þeirra átta sem setið hafa í ritstjórninni hefur fjölgað skattgreiðendum framtíðar á síðustu vikum.