Föstudagur 8. ágúst 2008

221. tbl. 12. árg.

F yrir nokkru var birt viðtal við Þórhall Björnsson, fyrrverandi Kaupfélagsstjóra Norður-Þingeyinga og síðar fulltrúa forstjóra Sambandsins. Þórhallur var spurður um stöðu efnahagsmála og þá þróun sem orðið hefur í landinu síðustu ár. Hann svarar eins og margir aðrir nú:

Já ég er í stórum dráttum ánægður með hana. Það hefur verið barist dyggilega – og ótrúlega mikill árangur náðst. En hugsunarháttur manna hefur líka gjörbreyst frá því sem áður var. Nú virðist æðsta hugsjónin að gera kröfur til annarra, en minni til sjálfs sín. Mér finnst áberandi í þjóðfélaginu, hve lítið tillit er tekið til atvinnuveganna, sem eru þó undirstaða þjóðlífsins. Auðvitað á þjóðin velgengni að fagna. Hún hefur það ákaflega gott á flestum sviðum. En við lifum um efni fram. Við erum að eta út eignir, sem frumherjarnir og eldra fólkið var búið að safna. Við erum að gera að engu alla lífeyrissjóði, atvinnuleysistryggingarsjóð og marga fleiri sjóði. Með fimmtíu prósent verðbólgu ár eftir ár er verið að eta þetta allt saman upp. Menn voru búnir að leggja hart að sér og spara til framtíðarinnar – og svo er það gert einskis virði á stuttum tíma. Þetta kann að sjálfsögðu ekki góðri lukku að stýra. En nú er ég víst farinn að berja lóminn einum um of. Við skulum því ljúka spjallinu með því að leggja áherslu á það sem áunnist hefur. Breytingin til batnaðar hefur verið stórkostleg. Og við megum ekki vanmeta hana.

Þetta samtal við Þórhall er áhugavert og skemmtilegt og má finna í heild sinni í bók Gylfa Gröndals, Mönnum og minningum, sem út kom árið 1981.

Það er fátt nýtt undir sólinni, þó nokkur nýbreytni felist að vísu í því að sumir Íslendingar 21. aldar kenni fullveldi landsins um hvernig komið er, en ekki því hvernig Íslendingar fara með krónurnar sínar.

Nú eiga stjórnvöld hins vegar að ganga á undan með góðu fordæmi og spara opinbert fé. Lækka skatta svo fólk fái notið eigin afraksturs og átt auðveldara með að standa við skuldbindingar sínar. Ófáir einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið hafa eytt allt of miklu undanfarin misseri, og nú þarf tími sparnaðar að ganga í garð. Þar á hið opinbera að gefa tóninn.

Málið snýst um það hvernig fólk, fyrirtæki og hið opinbera fer með peningana sína, en ekki hvað peningurinn heitir.