Síðan harðnaði á dalnum í olíumálum hafa miklar sviptingar átt sér stað í bílaframleiðslu heimsins – og miklu meiri breytingar eru í deiglunni. Japanir stóðu langsamlega bezt að vígi; gátu haldið sínu striki eftir að bensínverðið hækkaði og ollu framleiðendum , bæði í Evrópu og einkum Bandaríkjunum miklum erfiðleikum. Til hafta er ekki gripið, enda er frjáls verzlun einn af hornsteinum velmegunar. Aftur á móti hefur því verið beint til Japana eftir diplómatískum leiðum, að það væri feykilega vel séð, ef þeir vildu gjöra svo vel að halda dálítið aftur af sér. Á meðan hervæðast hinir stóru í Detroit, en sumum þeirra gengur það furðulega seint og illa. Chrysler er búinn að vera á heljarþröminni um tíma, 298 milljón dala tap á fyrstu þremur mánuðum ársins, en er eitthvað að rétta við aftur, m.a. vegna K-bílsins, sem er fjögurra strokka, mun minni en helztu sölubílar verksmiðjunnar á síðustu árum og með framhjóladrifi. Ford berst í bökkum og hefur af risunum þremur gengið verst að átta sig á breyttum heimi, þar er tapreksturinn hrikalegur, 439 milljónir dala á fyrstu þrem mánuðum ársins. Nú er allt traustið sett á nýjan Escort, sem heitir Mercury Lynx í Bandaríkjunum, en er annars framleiddur víða um heim og hefur fengið mjög jákvæðar umsagnir. |
– Lesbók Morgunblaðsins. |
Textinn hér að ofan birtist í Lesbók Morgunblaðsins í byrjun ágúst. Einhverjum kæmi það alls ekki á óvart, textinn á, um margt, vel við það ástand sem nú ríkir í olíumálum heimsins og þau áhrif sem það hefur á bílaframleiðslu. Glöggir lesendur átta sig þó á að nokkur atriði í textanum eiga ekki heima í Lesbókinni árið 2008 enda er hann fenginn úr Lesbókinni sem kom út þann 1. ágúst, árið 1981.
Það sem gerir að verkum að textinn gæti alveg eins hafa birst í þessum ágústmánuði eins og þeim sem hann birtist upprunalega í, árið 1981, er þetta:
* Það hefur vissulega harðnað á dalnum í olíumálum og sviptingar fyrirsjáanlegar eða þegar orðnar í bilaframleiðslu þess vegna.
* Japönsku bílaframleiðendurnir eru sannarlega betur í stakk búnir til að mæta þessum breyttu aðstæðum en hinir bandarísku keppinautar þeirra.
* Eflaust er enn reynt að hafa áhrif á heiðarleg viðskipti eftir diplómatískum leiðum en vonandi með litlum árangri þó.
* Og fréttir berast enn af því að bandarísku bílaframleiðendurnir tapi miklu og reiði sig algerlega á einhvern bíl sem þeir eru með á teikniborðinu.
Það sem hefði verið vafasamt ef textinn hefði birst í þessum ágústmánuði er þetta: Japanskir framleiðendur standa tæpast langsamlega best að vígi nema miðað sé við bandarísku keppinautana eingöngu.
* Chrysler tapaði 515 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en ekki 298 milljónum.
* Ford hagnaðist aftur á móti um 100 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi en tapaði ekki 439 milljónum eins og segir í textanum. Ford tapaði svo reyndar 8,67 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi þessa árs, en það er önnur saga.
* Ford treystir ekki lengur á nýjan Escort sér til bjargar eins og segir í textanum. Ford treystir reyndar á að selja hinn evrópska Ford Focus í Bandaríkunum og það er alveg sama sagan.
Það sem útilokar með öllu að textinn hefði birst í þessum ágústmánuði er svo þetta:
* K-bíllinn. Hann er, sem betur fer, ekki lengur framleiddur hjá Chrysler og Chrysler er, sem betur fer, búið að borga upp lánin sem Lee Iacocca fékk ríkisábyrgð fyrir svo framleiða mætti bílinn. Lánin lentu því ekki á bandarískum skattgreiðendum á endanum, enda var vísast nóg á þá lagt að þurfa að keyra bílinn.
* Í þriðju málsgrein segir: „Til hafta er ekki gripið, enda er frjáls verslun einn af hornsteinum velmegunar“. Svona var hægt að skrifa í Lesbók árið 1981, en ekki séns að það fengist birt árið 2008.
Textinn sem vitnað er til er eftir Gísla Sigurðsson, umsjónarmann Lesbókar til margra ára. Birti hann jafnan bílaumfjöllun sína í Lesbókinni og það með réttu, innan um annað lista- og menningarefni.
G ísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi hefur getið sér gott orð að undanförnu fyrir að hjóla á hina mikilvægu fundi í borgarstjórn Reykjavíkur. Næsta vetur mun hann hins vegar mæta á þotu.