Stefna og þróun Júníhreyfingarinnar er athyglisverð. Reynslan af Evrópusambandinu hefur kennt þeim að ESB nær árangri og stefnir til langrar framtíðar. Hreyfingin hefur skipt um skoðun og styður nú ESB, framtíðarþróun þess og aðild Dana að því. En Júníhreyfingin gagnrýnir forystu ESB hiklaust og einarðlega og berst af alefli fyrir auknu lýðræði og opnara stjórnkerfi og gegn tilraunum margra aðila í ríkjandi forystu ESB til að auka miðstýringuna. Íslendingar ættu að kynna sér þetta danska stjórnmálaafl. |
-Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu 3. september 2008. |
S érfræðingar í Evrópumálum hafa annað slagið orðið Vefþjóðviljanum að yrkisefni og það yfirleitt að gefnu tilefni. Einn slíkur er Jón Sigurðsson sem er þekktastur fyrir að hafa verið formaður Framsóknarflokksins um skamma hríð. Jón hefur annað slagið ritað greinar í Morgunblaðið á undanförnum mánuðum og hafa þær flestar einmitt snúist um Evrópumál, en hann hefur lengi verið yfirlýstur stuðningsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu með stuttu hléi þó á meðan hann veitti framsóknarmönnum forystu. Þá passaði það víst ekki að hans sögn að hann gengist við skoðunum sínum.
Morgunblaðsgreinar Jóns hafa þótt all sérstakar enda hafa þær ekki beinlínis lýst mikilli þekkingu á Evrópumálunum og því að mestu leyti dæmt sig sjálfar. Jón hefur þannig sem dæmi haldið því fram að Ísland gæti fengið ákveðnar léttvægar undanþágur í sjávarútvegi kæmi til að aðildar að ESB vegna þess að efnahagslega frumstæð landssvæði innan sambandsins hafi fengið þær. Eins hefur hann haldið því fram að Ísland yrði að ganga í ESB sem allra fyrst þrátt fyrir að hafa áður varað við því sem formaður Framsóknarflokksins að rasað væri um ráð fram og aðild að sambandinu skoðuð áður en jafnvægi hefði verið náð í efnahagslífi landsins. Ennfremur hefur Jón komist að þeirri stórmerkilegu niðurstöðu að vaxandi miðstýring innan ESB og aukin völd til stofnana sambandsins á kostnað aðildarríkjanna sé aðildarríkjunum til framdráttar. Og svona mætti halda áfram.
Að lokum má geta þess að í nýjustu grein Jóns í Morgunblaðinu í fyrir viku fjallar hann sérstaklega um dönsku stjórnmálasamtökin Junibevægelsen sem gagnrýnin eru á ESB og segir þau hafa skipt um skoðun frá því sem áður var og styðji nú sambandið og framtíðarþróun þess. Hann lýkur greininni á því að segja að Íslendingar ættu að kynna sér þessi samtök. Staðreyndin er sú að Junibevægelsen hefur aldrei haft úrsögn úr ESB á stefnuskrá sinni, það hafa ýmsir aðrir séð um þar í landi, og seint verður sennilega sagt að samtökin styðji framtíðarþróun ESB þar sem markmið þeirra er þvert á móti að vinda hressilega ofan af sambandinu þannig að það verði eins og áður en Maastricht-sáttmálinn tók gildi fyrir rúmum 15 árum. Það færi því kannski ágætlega á því að Jón tæki sig til og kynnti sér sjálfur dönsku stjórnmálasamtökin Junibevægelsen.