Föstudagur 4. apríl 2008

95. tbl. 12. árg.

Þ eir stjórnmálamenn eru til sem eru farnir að tala eins og það geti raunverulega komið til álita að skattgreiðendur verði látnir taka tugmilljarða, ef ekki hundraða milljarða króna erlent lán, – á verstu hugsanlegu kjörum – og nota þann gjaldeyri sem þannig fengist, til að létta undir með stærstu viðskiptabönkunum. Skattgreiðendur eigi með öðrum orðum að borga óheyrilegar fjárhæðir í vexti af nýjum erlendum lánum til að losa hluthafa bankanna sem áhættuminnst úr þeirri stöðu sem þeir hafa komið sér í.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld farið mjög hægt og varlega í að lækka skatta. Þess í stað hefur mikil áhersla verið lögð á að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs, sem var auðvitað nauðsynlegt að gera út af fyrir sig. Nú eru einhverjir menn hins vegar farnir að gæla við það í alvöru að steypa ríkinu aftur í erlendar skuldir til þess að hjálpa eigendum nokkurra einkafyrirtækja út úr klípu. Það var þá til mikils sem erlendu skuldirnar voru borgaðar í stað þess að skattar yrðu lækkaðir verulega.

Það hefur ekki vantað undanfarin ár að bankamenn beri sig vel og hafi þóst færir í flestan sjó. Öllum athugasemdum um rekstur og vinnubrögð bankanna hefur verið svarað með því að þeir séu nú einkafyrirtæki sem ríkinu komi ekki við og hafi ekki skyldur við aðra en hluthafa. Það er auðvitað satt og rétt og þannig á það að vera. Sem gerir enn undarlegra að vissir stjórnmálamenn virðist ekki einu sinni ætla að hugsa sig um áður en þeir láta skattgreiðendur hlaupa til og slá milljarða og aftur milljarða á svimandi vöxtum, og færa bönkunum. Og enginn virðist ætla að spyrja þá hvaðan þessi hugmynd sé komin og hvers skattgreiðendur eigi að gjalda.