Laugardagur 5. janúar 2008

5. tbl. 12. árg.

N ú eru margir reiðir Ástþóri Magnússyni fyrir að ætla enn og aftur að bjóða sig fram til forseta. Ýmsir hafa meira að segja haldið því fram að slík ákvörðun væri hvorki meira né minna en „nauðgun á lýðræðinu“. Það eru stóryrði sem engan rétt eiga á sér.

Menn geta haft hvaða skoðun sem er á Ástþóri Magnússyni og seint verður því haldið fram hér að hann sé sérstaklega eftirsóknarvert forsetaefni. Kosningar milli hans og núverandi forseta einna yrðu fjölleikahús, fáum til ánægju, og ef svo færi að fleiri frambjóðendur yrðu í boði þá er líklegt að framboð Ástþórs yrði til þess að kosningabarátta og eðlileg umræða færi fyrir ofan garð og neðan. En stóryrðamenn virðast alveg horfa fram hjá því, hugsanlega vegna persónulegra skoðana sinna á Ástþóri, að ef honum tekst með heiðarlegum hætti að safna tilskildum fjölda meðmælenda og uppfyllir önnur almenn skilyrði, þá á hann nákvæmlega sama rétt og aðrir á því að vera í kjöri.

Það getur vel verið að það væri betra ef að reglurnar væru öðruvísi, til dæmis ef að það þyrfti fleiri meðmælendur. Einhver gæti viljað að enginn mætti bjóða sig nema svo og svo oft fram án þess að ná kjöri, og svo framvegis. En reglurnar eru bara ekki þannig. Það er allt of algengt í umræðu að menn tala eins og reglur væru öðruvísi en þær eru. Hvert mál verður að afgreiða eins og lög og reglur eru á hverjum tíma. Ef að Ástþór verður frambjóðandi með löglegum hætti þá er það bara þannig og hann á ekki að þurfa að sitja undir ásökunum um „nauðgun á lýðræðinu“. Menn geta alveg verið óánægðir með löglega niðurstöðu, en sé hún lögleg þá eiga menn ekki að vera með stóryrði um annað. Menn sleppa því þá bara að kjósa Ástþór og reyna að hlusta ekki á þusið í honum vikurnar fram að kosningum.

Menn ættu einfaldlega að setja sig í spor þessa umdeilda einfara. Ef að maðurinn einfaldlega lítur á lögin, sér hvaða skilyrði þarf að uppfylla og fer svo og uppfyllir þau, þá á Ástþór Magnússon sama rétt og allir aðrir. Þeir sem telja sig hafa efni á því að æpa að Ástþóri Magnússyni hljóta að skilja þetta.

Að því sögðu er rétt að leggja til að reglur um kjör forseta Íslands verði endurskoðaðar ætli menn sér að hafa þetta óþarfa og feikidýra embætti áfram. En á hverjum tíma á að fara eftir þeim reglum sem gilda, en ekki einhverjum allt öðrum reglum sem einhverjir vildu kannski eftir á að hefðu verið í gildi en eru það ekki.