Helgarsprokið 10. júní 2007

161. tbl. 11. árg.

Á það hefur oft verið bent, að kvótakerfið sem tekið var upp á níunda áratugnum, breytingarnar í frjálsræðisátt sem ráðist var í á tíunda áratugnum og einkavæðing bankanna um aldamótin hafi verið mikil gæfuspor og séu meðal helstu skýringa á því að hér á landi búa menn við meiri almenna velmegun en í nánast nokkru öðru ríki veraldar. Ísland hefur á þessu tímabili farið úr því að vera aftarlega á merinni í samanburði við önnur Vesturlönd til þess að vera í fremstu röð.

„Þær breytingar sem gerðar hafa verið og sú þróun sem orðið hefur í atvinnulífi landsmanna síðast liðinn áratug eru þess eðlis, að jafnvel þótt farið verði að ráðgjöf Hafrannsókna-stofnunar verða afleiðingarnar miklu mildari en verið hefði.“

Hér á landi hafa orðið gífurlegar breytingar sem meðal annars má sjá af þeirri þróun sem orðið hefur á hlutfalli og fjölda þeirra sem starfa við ólíkar atvinnugreinar. Árið 1991 störfuðu til dæmis 16% landsmanna við veiðar og vinnslu á fiski auk landbúnaðar, tíu árum síðar var þetta hlutfall 14% og í fyrra var hlutfallið komið niður fyrir 11%. Stærstur hluti þessarar breytingar hefur orðið í sjávarútveginum, eða fjórar prósentur af þeim fimm sem færst hafa úr þessum atvinnugreinum.

Annað dæmi um breytingarnar má sjá í margföldun umsvifa fjármálafyrirtækja landsins. Einkavæðing ríkisviðskiptabankanna var undirbúin á tíunda áratugnum en framkvæmdin átti sér að mestu leyti stað um aldamótin og var að mestu lokið árið 2002. Þróun bankakerfisins hefur á þessum tíma verið með ólíkindum. Árið 2000 voru heildareignir helstu banka landsins, Íslandsbanka, nú Glitnis, og Kaupþings, sem voru í einkaeigu, og ríkisbankanna Búnaðarbanka og Landsbanka, samtals 774 milljarðar króna. Tveimur árum síðar, þegar einkavæðingunni var nánast lokið, voru eignirnar komnar í rúma eitt þúsund milljarða króna. Um síðustu áramót voru heildareignir þessara banka, auk Straums-Burðaráss sem orðið hefur til á tímabilinu, komnar í tæplega níu þúsund milljarða króna. Eignirnar höfðu vaxið um rúm 760% á þeim fjórum árum sem liðin voru frá einkavæðingu. Og rétt er að vekja athygli á því að hér eru ýmis fjármálaþjónustufyrirtæki undanskilin, svo sem sparisjóðirnir og fjöldi fjárfestingarfélaga, sem einnig hafa margfaldast að stærð og hafa umsvif víða um heim, líkt og bankarnir.

Aukið frjálsræði hefur margfaldað umsvif bankanna og skotið styrkari stoðum undir atvinnulífið.

Ekkert af þessu gerðist fyrir tilviljun heldur er þetta afleiðing þess að stjórnvöld ákváðu, þrátt fyrir harða andstöðu ýmissa aðila í stjórnmálum og víðar, að auka frelsi einstaklinga í atvinnulífinu og draga úr umsvifum hins opinbera. En jákvæð viðhorf stjórnvalda til atvinnulífsins, sem ekki komu aðeins fram í auknu frjálsræði og einkavæðingu heldur einnig í skattalækkunum, höfðu áhrif víðar en í fjármálageiranum. Þessi viðhorf áttu sinn þátt í því að áhugi erlendra fyrirtækja á að hefja starfsemi stórra iðnfyrirtækja hér á landi jókst til muna. Fyrir um hálfum öðrum áratug leituðu menn logandi ljósi að erlendum aðilum sem vildu fjárfesta hér á landi, nú er áhugi erlendra fjárfesta hins vegar orðinn það mikill að sumum þykir nóg um og vilja helst banna erlendum stórfyrirtækjum að setja upp fleiri verksmiðjur. Þeim verður vonandi ekki að ósk sinni enda full ástæða til að halda áfram að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið.

Menn gleyma því þegar vel gengur að velgengni er hvorki sjálfsögð né heldur er víst að hennar njóti alltaf við á öllum sviðum. Það þarf að taka réttar ákvarðanir áfram til að velgengnin snúist ekki upp í andhverfu sína, en þrátt fyrir réttar ákvarðanir geta erfiðleikar komið upp á ákveðnum sviðum og þá er enn mikilvægara að réttar ákvarðanir hafi verið teknar. Þó að atvinnuleysi sé varla til hér á landi nú getur það skotið upp kollinum á ný ef þess er ekki gætt að leyfa atvinnulífinu að byggjast upp áfram.

Atvinnulífið hér á landi hefur gjörbreyst á fáeinum árum.

En hvers vegna er verið að ræða þetta nú, þegar allt er í blóma? Jú, ástæðan er sú að landsmenn voru minntir á það fyrir viku að þó að sjávarútvegurinn hafi minnkað hlutfallslega bæði af landsframleiðslu og útflutningi þá skiptir hann enn miklu máli fyrir gjaldeyrisöflun landsins og störf og afkomu þúsunda landsmanna. Reiknað hefur verið út að sú skerðing aflamarks sem Hafrannsóknastofnun leggur til geti minnkað tekjur útvegsins um 25 milljarða króna. Verði farið að þeim tillögum er ljóst að erfiðleikar munu gera vart við sig víða um land og áhrifanna mun gæta um allt hagkerfið.

Fyrir áratug eða tveimur hefði verið óhætt að tala um reiðarslag fyrir landið í heild. Fréttir af þessu tagi hefðu þýtt að efnahagslífið hefði verið í bráðri hættu, kjararýrnun landsmanna hefði verið augljós afleiðing og atvinnuleysið hefði orðið nánast óbærilegt. Nú er staðan hins vegar allt önnur sem sést meðal annars af því að starfsfólki í sjávarútvegi hefur fækkað um nær 6 þúsund á síðast liðnum fimmtán árum, á sama tíma og starfandi fólki í landinu fjölgaði um nær 33 þúsund.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið og sú þróun sem orðið hefur í atvinnulífi landsmanna síðast liðinn áratug eru þess eðlis, að jafnvel þótt farið verði að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verða afleiðingarnar miklu mildari en verið hefði. Vegna þeirrar hagræðingar sem orðið hefur í sjávarútveginum frá því að kvótakerfið, með framseljanlegum eignarkvótum, var tekið upp, mun sjávarútvegurinn standa af sér niðurskurð aflaheimilda, þó að niðurskurðurinn verði vissulega erfiður. Án hagræðingar kvótakerfisins hefði sjávarútvegurinn í heilu lagi farið á hliðina.

En það er ekki aðeins vegna kvótakerfisins sem landsmenn munu finna mun minna fyrir niðurskurði aflaheimilda en ella hefði orðið. Mestu skiptir að fleiri stoðir eru nú undir atvinnu- og efnahagslífi landsins en voru fyrir fáeinum árum. Fleiri fyrirtæki en sjávarútvegurinn afla nú gjaldeyristekna og þeim fer fjölgandi og þau stækka ef fram fer sem horfir. Það verða áfram sveiflur í öllum atvinnugreinum, sér í lagi sjávarútvegi, en með því að leyfa atvinnulífinu að dafna eru slæm aflabrögð eða minna aflamark ekki lengur sem rothögg fyrir efnahagslífið. Þess vegna er ekki ástæða til að líta á fréttir af minnkandi aflamarki eingöngu sem slæm tíðindi. Það má einnig líta á þær sem áminningu um að láta andstæðinga einkaframtaks og öflugs atvinnulífs ekki ráða ferðinni í íslenskum efnahags- og atvinnumálum.