Kona barin með priki í Indónesíu í fyrra, eftir að hafa verið dæmd samkvæmt Sharia lögum fyrir að hafa haft ólöglegt samneyti við ókvæntan mann. |
L æknirinn dr. Tawfik Hamid ritaði grein í The Wall Street Journal í gær undir fyrirsögninni The Trouble With Islam, en Hamid þekkir íslam betur og frá fleiri hliðum en flestir, því að hann var áður fyrr félagi í Jemaah Islamiya, íslömskum hryðjuverkasamtökum. Í greininni setur Hamid fram svipuð sjónarmið og Irshad Manji gerði í samnefndri bók, The Trouble With Islam, og Vefþjóðviljinn sagði frá á sínum tíma.
Hamid bendir á að margt sé að í ríkjum múslima og nefnir sem dæmi að konur séu grýttar til bana, samkynhneigðir séu hengdir og palestínskar mæður haldi að ungum börnum sínum hugmyndum um píslarvættisdauða. Hann telur að Vesturlandabúar eigi ekki að umbera með nokkrum hætti eða horfa fram hjá því ofbeldi sem framið er í nafni íslam heldur fordæma það. Umburðarlyndi efli ofbeldismennina og veiki stöðu þeirra múslima sem vilji mæla gegn ofbeldinu. Hann telur hins vegar líka að þeir séu allt of fáir og segir að ekki eigi að líta á þá múslima sem hófsama sem ekki séu reiðubúnir til að fordæma ofbeldi og ógnarverk.
Hamid hefur meðal annars áhyggjur af því að pólitískur rétttrúnaður á Vesturlöndum standi í vegi fyrir skilyrðislausri gagnrýni á þau vandamál sem fylgi Sharia lögum íslam í dag. Pólitísk rétthugsun verði til þess að menn tíni til félagslegar eða pólitískar afsakanir fyrir hryðjuverkum múslima og hann spyr hvað ýti á múslima að krefjast umbóta þegar ýmsir Vesturlandabúa undirbúi jarðveginn fyrir ofbeldi í nafni íslam. Hamid hafnar því til dæmis, sem vinsælt er að tína til þegar ofbeldið er réttlætt, að fátækt, nýlendustefna, aðskilnaður eða tilvist Ísraelsríkis sé ástæða ofbeldisverkanna.
Friðþægingarstefna Vesturlanda hefur að mati Hamids magnað upp vandann við íslam, en andúðin á Bandaríkjunum segir hann að sé ef til vill verst af öllu. Hún sé svo djúpstæð að hún hafi orðið til þess að margir, meðvitað eða ekki, hafi veitt andstæðingum Bandaríkjanna móralskan stuðning
Dr. Hamid segir að menn verði að átta sig á því að róttækt íslam sé andstætt frjálslyndi og menn verði að vakna upp gagnvart ómanneskjulegri stefnu og aðgerðum íslamista víða um heim. Menn verði að átta sig á því að íslamismi feli í sér dauða frjálslyndra gilda. Og menn megi ekki taka virðingu fyrir mannréttindum, sem menn þekki í Bandaríkjunum og öðrum Vesturlöndum í dag, sem gefnum hlut.