Tímaritið Wine Spectator gerði áhrif víndrykkju á heilsu manna að meginefni í októberhefti sínu á nýliðnu ári. Já allt í lagi, það er svo sem ekki von á að slíkt rit, sem lifir á áhuga manna á víndrykkju, slengi því framan í lesendur sína að víndrykkja sé skelfileg fyrir heilsuna. Ágætt að hafa það í huga áður en lengra er haldið.
Sá sem Vínrýnir kallar einkum til vitnis um áhrif víndrykkju á heilsuna er R. Curtis Ellison læknir og prófessor í læknisfræði og lýðheilsufræðum við Boston læknaháskóla. Ellison er jafnframt forstöðumaður þeirrar stofnunar skólans sem kennd er við lífsmáta og heilsu.
Ellison hefur grein sína með þeim orðum að þrátt fyrir að margt bendi til þess að hófleg víndrykkja geti bætt heilsuna sé því ekki að neita að stórfelld neysla áfengis geti skaðað heilsuna mjög alvarlega.
„Ég hef tekið þátt í umræðu um vín og heilsu í yfir 20 ár. Ég hef mikla ánægju af vínum og nýtt þess að drekka nokkur glös af víni með matnum á hverju kvöldi. En ég er líka læknir sem hefur orðið vitni af afleiðingum misnotkunar á áfengi. … Að mínu mati getur hófleg víndrykkja aukið ánægju okkar án þess að stefna heilsunni í hættu. Að auki getur hófleg víndrykkja þess dregið úr líkum á því að verðum mörgum af skæðustu sjúkdómum samtímans að bráð. Þar með taldir eru hjartasjúkdómar, slag, elliglöp og jafnvel offita. Þegar á allt er litið trúi ég því að hófleg víndrykkja geti verið mikilvægur þáttur í því að við lifum lengur og við betri heilsu.“
Ellison vitnar til rannsókna sem gerðar hafa við Harvard háskóla á undanförnum árum þar sem fylgst er með heilsu og neysluvenjum allt að 100 þúsund manna í þeim tilgangi að kortleggja hvað það er sem skiptir mestu máli til að lifa heilsusamlegu lífi. Ellison segir niðurstöður þessara rannsókna (Nurses’ and Health Professionals studies) benda til að það séu einkum fimm þættir sem stuðli að bættri heilsu manna. Þeir sem uppfylla þessi fimm skilyrði fái 80% færri hjartaáföll og sykursýki er 90% sjaldgæfari meðal þeirra en annarra.
En hverjir eru þessir fimm þættir?
1. Forðist offitu. 2. Hollur matur. 3. Hreyfing. 4. Forðist reykingar. 5. Drekkið hálft til tvö glös af áfengi á dag.
Vafalítið koma fjórir fyrstu þættirnir fáum á óvart. Þetta er þær leiðbeiningar sem lýðheilsustöðvar og manneldisráð hins opinbera og líkamsræktarfrömuðir beina til okkar. Það er því óþarft að víkja frekar að þeim hér. Á fimmta þáttinn er sjaldan minnst. Um þennan fimmta þátt segir Ellison:
Rannsóknir benda til þess að hvers kyns áfengir drykkir (bjór, vín og sterkt vín) dragi úr líkum á hjartasjúkdómum og sykursýki. Þessi fimmti og síðasti þáttur, alkóhólkið er sérlega mikilvægur til að koma í veg fyrir hjartaáfall, slag og sykursýki. Ef menn neyta alkóhólsins með því að drekka tvö eða þrjú glös af léttu víni á dag benda margar rannsóknir til þess að jákvæð áhrif á heilsuna séu enn meiri. |
Ellison fjallar svo í ítarlegra máli um áhrif áfengis á hjartasjúkdóma, sykursýki, Alzheimer sjúkdóminn, offitu, krabbamein og langlífi og niðurstaða hans er sú að þegar allt er talið geti hófleg víndrykkja verið þáttur í heilsusamlegu líferni.
Í ársskýrslu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fyrir árið 2003 kemur fram að skattar (vörugjald, áfengisgjald, skilagjald og virðisaukaskattur) eru 57,7% af verði rauðvínsflösku sem er 12,5% alkóhól. Skattarnir eru enn hærra hlutfall af verði bjórflösku (64%) og yfir 80% af vodkapelanum.
Einn af þessum sköttum, svonefnt áfengisgjald, er lagt á hvern sentílítra alkóhóls. Þannig getur skattur á ódýrt vín með hátt alkóhólinnihald verið hærri en á dýrt vín með minna alkóhólmagn. Á venjulega rauðvínsflösku leggst um 400 króna áfengisgjald, sama hvert innkaupsverðið er. Það gefur auga leið að skattlagning af þessu tagi er mjög óhagstæð ódýrum vínum sem kosta ef til vill ekki nema 100 til 200 krónur í innkaupum. Áfengisgjaldið virkar sem mörg hundruð prósent skattur á innkaupsverð þessara ódýru vína. Svo bætast skilagjald, vörugjald og virðisaukaskattur ofan á þetta. Þeir sem eru að kaupa ódýrustu rauðvínin úr hillum ÁTVR greiða með öðrum orðum hlutfallslega meira í skatta en þeir sem kaupa dýru vínin. Þannig geta skattar verið yfir 70% af verði flösku sem kostar um 1.000 krónur í ríkinu en „aðeins“ rúmlega 20% af verði flösku sem kostar 20 þúsund krónur. Þessi skattlagning með áfengisgjaldinu er því þvert á það sjónarmið sem hefur verið ríkjandi í skattamálum að skattleggja skuli „lúxusvarning“ mest. Staðreyndin er að þeim mun ódýrari sem vín eru því hætti skatta bera þau hlutfallslega. Vegna áfengisgjaldsins eru ódýrustu vínin hjá ÁTVR tvöfalt dýrari en þau væru ella.
Þessi mikla skattlagning (að meðaltali 57,7% af útsöluverði) á vín er einnig þvert á það sjónarmið að auðvelda skuli mönnum að kaupa heilsusamleg matvæli. Ef marka má þær rannsóknir sem prófessor Ellison vitnar í getur víndrykkja dregið úr líkum á því að menn verði mörgum af skæðustu sjúkdómum samtímans að bráð.
Vefþjóðviljinn er auðvitað andvígur því að vörum sé hyglað á þeirri forsendu að þær séu hollar eða lögð sérstök gjöld á aðrar vegna meintrar óhollustu. Það á að vera sami skattur á öllum vörum.
Í þessu ljósi verður svonefnd „lækkun matarskatts“ enn einkennilegra mál. Hvers vegna vilja menn lækka virðisaukaskatt á snakk, tvíbökur, saltkex, rjóma og aðra dýrafitu úr 14% í 7% – eins og Samfylkingin hefur lagt til – á sama tíma og vín bera 24,5% virðisaukaskatt auk annarra skatta sem geta hlaupið á mörg hundruð prósentum af innkaupsverði? Væri ekki nærtækara að nýta tækifærið og fella áfengisgjaldið niður og hætta þar með að refsa mönnum fyrir að stunda heilsusamlega hófdrykkju? Það hlýtur að koma til álita fremur en að hygla feitum og söltum mat enn frekar.