Helgarsprokið 14. ágúst 2011

226. tbl. 15. árg.

M argir hafa með sanni bent á að seðlaprentunarvald ríkisins er enn ein leið þess til skattlagningar. Með seðlaprentun umfram vöxt og viðgang í þjóðfélaginu falla seðlarnir í verði og handhafar þeirra sitja eftir með sárt ennið. Þetta er í daglegu tali nefnt verðbólga, sem er hóflegt orð fyrir þær gripdeildir sem um ræðir. Þeir sem skilja þetta ekki geta rifjað upp hvað þeir gátu keypt fyrir 10 þúsund krónur um síðustu áramót og reynt að endurtaka leikinn fljótlega.

Svona hefur þetta gengið undanfarna tvo áratugi á Íslandi, samkvæmt mynd frá Ólafi Margeirssyni hagfræðingi.

Aðeins einu sinni á þessu tímabili, í kringum 1995, hjó ríkið ekki skarð í eigur manna með verðbólgu. Og svonefnd vikmörk seðlabankans duga skammt til að koma böndum á hana. Þetta 20 ára tímabil er engu að síður það skásta í lýðveldissögunni, hvað þetta varðar.

Þessara augljósu svikamyllu er ekki aðeins haldið gangandi heldur hefur hún nú fengið algeran einkarétt á viðskiptum við Íslendinga. Íslendingum er einfaldlega bannað að skipta krónum sínum í aðra mynt.

F.A. Hayek ræddi þetta sem oftar um miðjan áttunda áratuginn í fyrirlestri sem nefndist Val um gjaldmiðil: Leið til að stöðva verðbólgu. Í inngangi segir hann:

Helsta undirrót þeirra peningavandræða sem við eigum í núna, er vitaskuld það fulltingi vísindanna sem Keynes lávarður og fylgismenn hans, léðu þeirri fornu bábilju, að með því að auka heildar eyðslu fjár, sé hægt að auka hagsæld með varanlegum hætti og hafa næga atvinnu. Fyrir daga Keynes höfðu hagfræðingar glímt við þessa bábilju, í að minnsta kosti tvær aldir. Hún hafði ríkt um mikinn hluta skráðrar sögu á undan. Raunar er hagsagan að drjúgum hluta verðbólgusaga. En vel að merkja, var það ekki fyrr en blómstrandi iðnkerfi nútímans komst á legg, og á tíma gullfótarins, að í hér um bil tvö hundruð ár (frá um 1714 til 1914, í Bretlandi – og í Bandaríkjunum frá um 1749 til 1939) sem verðlag var að lokum eins og það hafði verið í upphafi. Á þessu einstæða stöðugleikaskeiði peninga, veitti gullfóturinn peningastjórn slíkt aðhald að stöðvaði þær hundakúnstir, sem annars hafa nær ævinlega tíðkast. Reynslan virðist ekki ósvipuð annars staðar í heiminum: Eitt sinn heyrði ég um gömul lög í Kínaveldi, þar sem reynt var að banna pappírspeninga um alla framtíð (án árangurs, vitanlega), löngu áður en mönnum datt í hug að nota slíkt í Evrópu!

Það er niðurstaða Hayeks að fólk þurfi að geta valið um gjaldmiðil til að koma megi böndum á verðbólguna. Menn verði að geta kosið með fótunum í þessum efnum sem öðrum.

Það gæti ekki verið neitt betra aðhald fyrir peningastjórn yfirvalda, en að fólki sé frjálst að hafna peningum sem það vantreystir og nota aðra sem því líst betur á. Né heldur gæti verið yfirvöldum nein meiri hvatning, til að tryggja stöðugleika peninga sinna, en sú vissa að svo fremi sem framboð peninganna héldist neðan við eftirspurnina, myndi eftirspurnin fara heldur vaxandi. – Því skulum við taka frá yfirvöldum (eða peningastjórn þeirra) allt vald til að vernda peninga sína fyrir samkeppni: ef þau geta ekki lengur dulið að mynt þeirra sé að verða slæm, verða þau að minnka útgáfu.