Fimmtudagur 2. október 2003

275. tbl. 7. árg.
Innan fimm daga frá setningu Alþingis skal forsætisráðherra flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en eftirrit af ræðunni skal afhent þingmönnum sem trúnaðarmál eigi síðar en þremur dögum áður en hún er flutt.
 – 1. mgr. 73. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis.

Það var fyrsta frétt á Stöð 2 um daginn að tiltekinn alþingismaður hefði verið sviptur ökuréttindum vegna umferðarlagabrots. Nú eru ökuréttindi vitaskuld ekki skilyrði fyrir kjörgengi til alþingis svo svipting mannsins átti ekki ekki erindi fremst í fréttatímann af þeirri ástæðu. Þess í stað taldi Stöð 2 að almennir borgarar ættu rétt á að vita um brot þingmannsins á umferðarlögum þar sem gera yrði ríkar kröfur til löghlýðni þingmanna, svona í ljósi þess að þeir setja öðru fólki lög. Í framhaldinu spratt upp umræða um það hvort gera mætti ríkari löghlýðnikröfur til alþingismanna en annarra og hvort það ætti erindi í fréttir ef þeir brytu af sér í daglegu lífi. Og eins og menn vita þá telur Stöð 2 að lögbrot þingmanna séu stórmál sem borgararnir eigi heimtingu á að fá að vita um.

Í kvöld mun forsætisráðherra flytja stefnuræðu sína og í samræmi við lög hefur henni verið dreift sem trúnaðarmáli til alþingismanna. Einn fjölmiðill hefur þó tekið upp á því að birta stóra kafla úr hinni væntanlegu ræðu, eftir að hafa fengið ræðuna hjá þingmanni. Þingmaðurinn hefur, með því að afhenda ræðuna, ekki aðeins rofið almennan trúnað, sem auðvitað er mjög ámælisvert en um leið skapgerðarlýsandi, heldur brotið mjög skýrt lagaákvæði. Og vert að hafa í huga að þetta er lagaákvæði sem snertir beint störf hans sem alþingismanns. Það er ekki eins og þingmaðurinn hafi verið að brjóta af sér í sínu einkalífi, svona eins og sá sem braut umferðarlögin, heldur rauf maðurinn lögskipaðan trúnað sem honum var sýndur sem alþingismanni. Og fjölmiðillinn sem á í hlut, fjölmiðillinn sem gerir brotið alvarlegt, það er Stöð 2.

Nei, nú hefur Stöð 2 engan áhuga á lögbroti þingmanna. Nú er það sko engin regla að einhver „almenningur“ eigi rétt á að vita hvort „þeir sem setja okkur hinum lög fari sjálfir eftir lögum“. Þetta er bara regla þegar Stöð 2 hentar, annars ekki. En þá veit fólk það. Svo lengi sem Stöð 2 þegir yfir lögbroti þingmanns, lögbroti sem stöðin sjálf kom meira að segja að og ýtti undir, þá liggur það fyrir að Stöð 2 meinar nákvæmlega ekkert með því að borgararnir eigi rétt til upplýsinga um lögbrot þingmanna. Stöð 2 varð beinlínis vitni að lögbroti þingmanns en segir ekki frá því. Það er því ekki aðeins ónefndur þingmaður sem hefur unnið til þess að missa þann trúverðugleika sem hann kann að hafa haft, sá trúverðugleiki sem fréttastofa Stöðvar 2 kann að hafa haft er farinn sömu leið. En fréttastofan getur hins vegar huggað sig við það að þó hún hafi misst trúverðugleika þá hefur hún nú eignast vasaþingmann. Einhvers staðar í þingsal alþingis situr nú einstaklingur og veit það að um leið og fréttamönnum Stöðvar 2 þóknast að opna munninn, þá er þingmaðurinn sjálfur farinn. Það hlýtur að vera þægileg tilfinning fyrir þingmann sem ætlaði að vera snjall.