Helgarsprokið 6. apríl 2003

96. tbl. 7. árg.

Vorþing Samfylkingarinnar var haldið í gær og fyrradag og þar fengu þinggestir bæði að hlýða á setningarávarp formanns flokksins og stefnuræðu leiðtoga flokksins. Formaður og leiðtogi eru vitaskuld ekki sami maðurinn og formaður flokksins, Össur Skarphéðinsson, gagnrýndi það sem hann kallaði „yfirboð“ í kosningabaráttunni en næst á dagskránni var stefnuræða leiðtoga flokksins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem var uppfull af því sem kalla mætti yfirboð. Gott og vel, stefnuleysi og hringlandaháttur eru svo sem orðin aðalsmerki Samfylkingarinnar svo við þessu er í sjálfu sér ekkert að segja. En lítum á nokkrar af hugmyndum Ingibjargar Sólrúnar, hverjar þær hafa verið og hverjar þær eru. Engu verður spáð um hverjar þær verða á morgun.

„Þannig setti leiðtoginn fram hugmyndir um útgjaldaaukningu sem nema að minnsta kosti 9 milljörðum króna að eigin mati, til viðbótar almennum hótunum um aukningu útgjalda á ýmsum sviðum. Þessi stefnufesta í málflutningi er auðvitað til þess eins að undirstrika að Samfylkingin vill ekki vera á lista hinna staðföstu í nokkru máli.“

„Þannig setti leiðtoginn fram hugmyndir um útgjaldaaukningu sem nema að minnsta kosti 9 milljörðum króna að eigin mati, til viðbótar almennum hótunum um aukningu útgjalda á ýmsum sviðum. Þessi stefnufesta í málflutningi er auðvitað til þess eins að undirstrika að Samfylkingin vill ekki vera á lista hinna staðföstu í nokkru máli.“ Ingibjörg Sólrún hefur haldið því fram að lækka þurfi jaðarskatta. Þetta hefur hún lagt sérstakt kapp á eftir að skýrsla OECD um gott ástand efnahagsmála hér á landi kom út fyrir fáeinum dögum vegna umfjöllunar um skattamál í þeirri skýrslu. Í skýrslunni er mælt með lækkun skatthlutfalls á einstaklinga, en þessi núverandi leiðtogi Samfylkingarinnar og talsmaður flokksins í skattamálum kaus að misskilja skýrsluna og rangtúlka og hélt því fram að ekki væri átt við lækkun almennra skatthlutfalla heldur jaðarskatta sem væri eitthvað allt annað. Hið rétta er þó að þegar hagfræðingar tala um lækkun jaðarskatta á einstaklinga eiga þeir við lækkun skatthlutfalla, en það er ekki við því að búast að þeir sem hafa aðeins tekið þátt í stjórnmálum í um tvo áratugi geri sér grein fyrir jafn einföldu grundvallaratriði skatta. Hitt er svo annað mál að stundum er talað um önnur jaðaráhrif í skattkerfinu en jaðaráhrif vegna skatthlutfallsins sjálfs. Þessi jaðaráhrif stafa af margvíslegum tekjutengingum sem eru hugsaðar til þess að skattbyrðarnar lendi sem mest á þeim sem hafa mestar tekjur. Sérkennilegt er að heyra leiðtoga Samfylkingarinnar gagnrýna of mikil jaðaráhrif í skattkerfinu á sama tíma og leiðtoginn kvartar yfir því að byrðarnar séu of þungar á þeim lægst launuðu. Er þetta í samræmi við annan ruglanda í málflutningi þessa flokks, jafnt í skattamálum sem öðrum.

Eitt af því helsta sem Ingibjörg Sólrún hefur kynnt fyrir þessar kosningar, nú síðast í sjónvarpi fyrir örfáum dögum, er að fjölga þurfi þrepum í tekjuskattskerfinu. Svo sérkennilega vildi þó til að hún minntist ekki orði á þetta í ræðu sinni á vorþinginu og ekkert er um þetta í stefnu flokksins, sem er svo sem í allgóðu samræmi við stefnufestu flokksins og talsmanna hans. Þess í stað er í stefnu Samfylkingarinnar lofað hækkun skattleysismarka án þess að lækka skatthlutföll. Með þessu er ekki hreyft við helsta stefnumálinu, þ.e. lækkun jaðarskatta, en þess í stað er jaðarsköttunum haldið háum. Annað sem athygli vekur við þessa hugmynd er að hún getur ekki með nokkru móti farið saman við það fjölþrepa skattkerfi sem Ingibjörg Sólrún segist vilja taka upp. Fjölþrepa kerfi fylgir óhjákvæmilega að skattleysismörk verða að lækka og þarf ekki annað en líta til Norðurlandanna til að sjá þetta. Í Svíþjóð eru skattleysismörkin til að mynda um 6.000 krónur en um 70.000 krónur hér á landi. Jafnvel stjórnmálamenn sem langar til að gera allt fyrir alla án þess að það kosti nokkurn mann krónu, geta ekki galdrað fram nothæft þrepaskipt skattkerfi eins og leiðtogi Samfylkingarinnar lýsir. Eina leiðin til að þrepaskipting og hærri skattleysismörk geti gengið upp saman er með því að þrepunum verði öllum breytt upp á við, þ.e. með því að hækka verulega skatta á þá sem hafa millitekjur og þar yfir. En þar með væru jaðaráhrifin vitaskuld orðin óbærileg og fáir fengjust til að vinna nema rétt fram yfir hádegi, því með fullri vinnu væru þeir lentir í skattpíningu. Ekki má þó útiloka að hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar gangi út á þetta, því hún hefur ekki vílað fyrir sér hingað til að hækka skatta.

Þar sem formaður Samfylkingarinnar varaði við yfirboðum í ræðu sinni á Vorþinginu var gott samræmi í því að leiðtogi Samfylkingarinnar skyldi nokkrum mínútum síðar boða útgjaldaauka til ýmissa „velferðarmála“ langt umfram það sem aðrir hafa boðað. Þannig setti leiðtoginn fram hugmyndir um útgjaldaaukningu sem nema að minnsta kosti 9 milljörðum króna að eigin mati, til viðbótar almennum hótunum um aukningu útgjalda á ýmsum sviðum. Þessi stefnufesta í málflutningi er auðvitað til þess eins að undirstrika að Samfylkingin vill ekki vera á lista hinna staðföstu í nokkru máli.

Í stefnuræðu leiðtoga Samfylkingarinnar eru lítt dulbúnar hótanir um skattahækkanir á fyrirtæki, sparnað og þá sem hafa tekjur yfir meðallagi. Hún gagnrýnir tekjuskatt á fyrirtæki og sparnað og telur augsýnilega að í þessum tilvikum sé skatthlutfallið of lágt. Þar fyrir utan gagnrýnir hún að ekki sé greiddur skattur af fjármagnstekjum til sveitarfélaga og er ekki hægt að skilja orð hennar öðruvísi en svo að leggja eigi útsvar á fjármagnstekjur ofan á fjármagnstekjuskatt ríkisins. Um þetta og fleira í skattamálum gæti hún væntanlega átt samleið með vinstri grænum, sem vilja breikka tekjustofna sveitarfélaga. Þá gagnrýnir leiðtogi Samfylkingarinnar að hinir tekjuhæstu greiði ekki meiri skatta en raun ber vitni, og þó búa þeir við sérstakan 5% tekjuskatt ofan á almenna tekjuskattinn. Þessi gagnrýni er enn ein staðfesting þess að ætlun Samfylkingarinnar er að hækka duglega skatta á þá sem hafa tekjur yfir meðallagi, enda hefur Samfylkingin engan skilning á því að skapa þurfi verðmæti í þjóðfélaginu og að það verði best gert með hófsamri skattheimtu sem gefi einstaklingunum nauðsynlegt svigrúm til athafna.

Þeir sem efast um að Ingibjörg Sólrún muni hækka skatta komist hún í aðstöðu til þess geta haft í huga að í blaði R-listans fyrir kosningarnar 1994 lofaði hún sérstaklega að hækka ekki skatta á Reykvíkinga kæmist hún til valda og sagði orðrétt: „Við ætlum ekki að hækka skatta.“ Allir þekkja efndirnar. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar fjórum árum síðar lofuðu R-listamenn að lækka gjöld á borgarbúa, en hækkuðu svo útsvarið strax um haustið. Spurð út í þetta í sjónvarpsfréttum eftir útsvarshækkunina svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eins og henni er einni lagið: „Þekkir þú einhver dæmi þess, að þeir sem eru að bjóða sig fram til kosninga lofi skattahækkunum?“

Þess eru raunar dæmi að stjórnmálamenn lofi skattahækkunum og má nefna frambjóðendur VG sem dæmi um slíka stjórnmálamenn. Þeir segja hreint út fyrir þessar kosningar að þeir ætli að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% í 12%-18% og ná þannig inn 2.000 milljónum króna aukalega. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætlar augljóslega að hækka skatta eftir kosningar, en hún er líka augljóslega enn þeirrar skoðunar að ekki gangi að lofa skattahækkunum fyrir kosningar.