Fimmtudagur 14. ágúst 2003

226. tbl. 7. árg.

B

Hið opinbera getur sparað skattgreiðendum um 450 miljónir króna á ári með því að hætta að styrkja Sinfóníuhljómsveit Íslands.

orgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að óska eftir því að Reykjavíkurborg verði leyst undan þeirri lagaskyldu sinni að styrkja Sinfóníuhljómsveit Íslands og skyldi engan undra. Framlög borgarinnar til hljómsveitarinnar nema yfir fimmtíu milljónum króna á ári, eða sem svarar til um tíunda hluta rekstrarkostnaðar sveitarinnar, og skiljanlegt að borgarráðsfulltrúar séu þeirrar skoðunar að skattfé Reykvíkinga megi verja betur en til að styrkja sinfóníuhljómsveit. Ef einhver önnur yfirvöld væru í Reykjavík gætu borgarbúar jafnvel átt von á að sparnaðurinn yrði notaður til að lækka skatta, en því er ekki að heilsa þegar R-listinn er annars vegar. Hann mun hvorki leggja niður holræsagjald eða lækka útsvar þótt borginni takist að losna undan fjárframlögum til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hann mun ekki einu sinni hætta við að hækka heita vatnið í verði, enda verður víst að hækka heita vatnið þegar hlýnar í verði. Og hér er ástæða til að taka fram að sú hækkun er, eins og talsmenn Orkuveitu Reykjavíkur hafa bent á, alls ótengd rándýru skrifstofuhúsi Orkuveitunnar eða milljörðunum sem fóru í Línu.Net. Það þarf bara að hækka verðið vegna þess að veðrið er gott, ekki af þeirri ástæðu að eyðslan hefur farið úr böndum. Þetta skilja allir.

En svo vikið sé aftur að Sinfóníunni, þá er þrátt fyrir alla eyðslu og skattpíningu R-listans skiljanlegt að borgin vilji spara sér þá fimm tugi milljóna sem fara í rekstur hljómsveitarinnar. Borgin er þó ekki eini aðilinn á landinu sem gæti sparað háar fjárhæðir með því að hætta að styrkja Sinfóníuhljómsveitina og sá sem gæti sparað mest á því er ríkissjóður. Ríkið greiðir í ár 250 milljónir króna til Sinfóníuhljómsveitarinnar um 685.000 krónur á hverjum degi ársins og gæti því sparað umtalsvert með því að hætta styrkveitingunni. Samtals greiða opinberir aðilar um 450 milljónir króna með hljómsveitinni á hverju ári, eða um níu krónur með hverri einni krónu sem hljómsveitin aflar með eðlilegum hætti. Rekstrargrundvöllur Sinfóníuhljómsveitarinnar virðist því að óbreyttu ekki vera fyrir hendi og eðlilegt að opinberir aðilar hætti að neyða fólk til að styrkja hljómsveit með skattfé ef það er ekki reiðubúið til að styrkja sveitina af fúsum og frjálsum vilja.