Föstudagur 15. nóvember 2002

319. tbl. 6. árg.

Fjármálaráðherra og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins barma sér nú ákaft undan þeirri skattaumræðu sem fram hefur farið í fréttum Stöðvar 2 undanfarið. Áður hafði fjármálaráðherrann verið ósáttur við umfjöllum dagblaða um sömu mál. Í grófum dráttum má segja að það sem komið hefur fram í þessum fréttum er að þrátt fyrir lækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga á árunum 1997 – 2000 greiða einstaklingar nú hærra hlutfall tekna sinna í tekjuskatt en nokkru sinni. Þetta hljómar auðvitað einkennilega en skýringin er einfaldlega sú að tekjur manna hafa hækkað svo hressilega síðustu ár að menn sem greiddu litla sem enga skatta fyrir nokkrum greiða nú skatta. Og eins og skattkerfið er úr garði gert greiða menn því hærra hlutfall tekna sinna í skatt sem tekjur þeirra hækka.

Segjum nú að fréttamönnum Stöðvar 2 hafi með þessari umræðu tekist að koma því að hjá hinum almenna manni að skattar séu hér of háir þrátt fyrir lækkun á skatthlutfallinu úr 41,9% í 38,78%. Hvaða áhrif hefur það á afstöðu manna til stjórnmálaflokkanna? Hlaupa menn til og kjósa Steingrím Jóhann Sigfússon, Ögmund Jónasson, Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson? Ætli það. Þessir forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa allir staðið á móti þeirri lækkun á skatthlutföllum sem þrátt fyrir allt hefur átt sér stað.

Fjármálaráðherra og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga því að taka þessari umræðu fagnandi í stað þess að fara undan í flæmingi. Umræðan er í raun ekkert annað en krafa um að áfram verði haldið á sömu braut með lækkun skatthlutfalla en farið verði hraðar í það mál en gert hefur verið. Þessi umræða er að minnsta kosti ágætis hvíld frá eilífu sífri um að dýpra verði seilst í vasa skattgreiðenda eftir fé í fleiri og stærri verkefni á vegum hins opinbera. Nokkrir nýir frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafa einmitt hent þessi mál á lofti og leggja áherslu á að áfram verði unnið að því að lækka skatthlutföllin. Þeir hafa jafnframt bent á tvískinnung þeirra Samfylkingarmanna sem þykjast nú talsmenn skattalækkana. Þannig vekur Ingvi Hrafn Óskarsson athygli á þessu á heimasíðu sinni og rifjar upp andstöðu Jóhönnu Sigurðardóttur á þingi við lækkun á tekjuskattshlutföllum einstaklinga. Birgir Ármannsson rifjaði einnig upp harða andstöðu Össurar Skarphéðinssonar við skattalækkanir á einstaklinga í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku.