Það er ekki erfitt að skilja að svo kallaðir sjóntækjafræðingar séu bæði ósáttir og óþolinmóðir. Samkvæmt núgildandi lögum þarf fólk að leita til augnlæknis áður en það fær sér gleraugu en sjóntækjafræðingunum, sem þó telja sig hafa bæði nauðsynleg tæki og kunnáttu, er ekki treyst til að rannsaka það sem hið opinbera telur að verði að rannsaka áður en gleraugu eru keypt. Sjóntækjafræðingarnir hafa lengi barist fyrir því að fá heimild til að ganga í þetta hlutverk augnlæknanna og um síðustu helgi auglýstu þeir að þeir myndu ekki bíða lengur heldur taka málin í eigin hendur. Augnlæknar eru svo bálreiðir og krefjast þess að heilbrigðisyfirvöld taki í taumana og sjái til þess að reglum sé hlýtt.
Augnlæknar hafa haldið því fram að núgildandi reglur – sem veita þeim umrætt sérleyfi – hafi reynst svo vel að á Íslandi sé umtalsvert minna um ýmsa augnsjúkdóma, svo sem gláku, heldur en í þeim löndum þar sem sjóntækjafræðingar hafi gengið í störf augnlækna. Þá segja augnlæknar að óeðlilegt sé að sá mæli sjón manns sem hafi sjálfur mikla fjárhagslega hagsmuni af því að mælingin verði til þess að gleraugu verði keypt. Gott og vel, hvort tveggja eru málefnaleg rök svo langt sem þau ná. Og auðvitað er svo að vissu leyti skiljanlegt að stjórnvöld hafi verið hikandi við að breyta reglum á tilteknu heilbrigðissviði þegar þeir læknar sem þar starfa vara ákaflega við breytingunni. En allt að einu ætti að breyta reglum og afnema umrædd sérréttindi augnlækna.
Jú, segjum að það sé hugsanlegt að í einhverjum tilfellum sjáist sjóntækjafræðingi yfir eitthvert upphafseinkenni augnsjúkdóms sem sérfræðingur í augnlækningum hefði komið auga á. Það er ekki hægt að útiloka það. En það leiðir ekki til þess að það eigi að skylda alla viðskiptavini gleraugnabúða til að leita augnlæknis. Ekki frekar en það á að skylda nokkurn annan mann að fara til augnlæknis. Eða annarra lækna. Eflaust mætti bjarga heilsu einhvers ef menn yrðu skyldaðir í hinar og þessar læknisrannsóknir. Það er sjálfsagt hægt að finna rök fyrir því að neyða alla menn reglulega í blóðprufur, röntgen og svo framvegis, en það á ekki að taka ráðin þannig af fólki. Það á ekki að taka af fólki ábyrgðina á eigin lífi eða réttinn til að velja og hafna. Alveg eins og það á að vera val hvers og eins hvort hann lætur mæla í sér kólesterólið mánaðarlega á það að vera hans eigin ákvörðun hvort hann ráðfærir sig við augnlækni áður en hann kaupir sér gleraugu.
Nú finnst ef til vill einhverjum að ein heimsókn til augnlæknis sé ekki mikil fyrirhöfn ef hún verði til þess að fækka augnsjúkdómum. Menn geti nú alveg látið eitthvað á móti sér fyrir slíkan ávinning. Og allt í lagi, auðvitað er gott ef færri menn taka sjúkdóm, það er engin ástæða til að gera lítið úr því. En menn mega ekki gleyma hinum ákaflega mikilvæga rétti hvers manns, réttinum til að mega sjálfur taka ábyrgð á eigin lífi. Ef það er réttmætt að banna mönnum að kaupa sér gleraugu án þess að leita fyrst til viðurkenndra augnlækna, mætti þá ekki réttlæta margt annað, svona í heilbrigðisskyni? Hvað með mataræði, hvenær verða settar reglur um það? Hvenær hættir ríkið að ráðleggja fólki um mataræði og fer að skipa fyrir um það? Ríkið gengur alltaf lengra og lengra í þá átt að banna tóbaksnotkun, jafnvel neftóbaksnotkun sem þó verður varla bönnuð undir því yfirskini að verið sé að vernda saklausa fyrir tóbaksreyk annarra. Þeir sem banna neftóbak, geta þeir ekki alveg eins bannað þann mat sem þeir geta ekki unnt öðrum að borða? Evrópusambandið er búið að setja reglur um hámarksvinnutíma, má ekki alveg eins setja reglur um lágmarkssvefn? Má ekki setja reglur um lágmarksklæðnað í köldu veðri? Má banna mönnum óþarfa hættuferðir? Þarf Haraldur Örn Ólafsson leyfi fyrir væntanlegri ferð sinni á þrjár hæstu gnípur beneluxlandanna?
Hvað af þessu er mikið fráleitara en að banna mönnum að kaupa sér gleraugu án þess að ráðfæra sig fyrst við augnlækni?