Eftir því sem árin líða virðist það æ algengara að orð og gerðir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á stjórnmálasviðinu verði ekki skýrð með aðferðum stjórnmálafræðinnar en heyri fremur undir aðrar fræðigreinar. Það verður sífellt algengara, að í gegnum úthugsuðu himnuna, sem breidd var yfir hana fyrir nokkrum misserum, skíni það sem virðist raunverulega knýja hana áfram. Og það er því miður engin sérstök stjórnmálaskoðun, að minnsta kosti engin frjálslynd og nútímaleg stjórnmálaskoðun. Það virðist einfaldlega vera hatur, blint hatur á tilteknum stjórnmálaflokki og einkum nokkrum forystumönnum hans. Sá flokkur má engin áhrif hafa, þá er Ingibjörgu ekki rótt. Njóti forystumenn þessa flokks trausts, þá er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki mönnum sinnandi. Á tuttugu ára stjórnmálaferli hefur hún hatast við þennan flokk, aldrei getað sagt jákvætt orð um nokkuð sem honum tengist, aldrei getað unnt honum sannmælis í nokkru máli. Hún hefur aldrei getað látið af því að skilgreina illmennsku þessa flokks og einkum forystumanna hans fyrir sjálfri sér og öðrum og öll hennar stjórnmálabarátta virðist núorðið snúast um það eitt að fá útrás fyrir hatur sitt á þessum eina stjórnmálaflokki. Og sérstaklega virðist hún stjórnlaus þegar henni verður hugsað til formanns þessa flokks. Allt þaulæfða margsmurða nútímahjalið, sem ímyndarhönnuðir tóku að útbúa fyrir hana fyrir nokkrum árum, virðist fyrir henni einungis sem hver önnur þula sem fara má með svo lengi sem það skilar árangri í þessu prívatstríði, rétt eins og trúlaust barn fer með trúarjátninguna þegar það fermist vegna gjafanna.
Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær gaf Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fólki innsýn í hugarheim sinn, þó hún hafi sennilega gefið skýrari mynd af honum en hún og ræðuskrifarar hennar höfðu hugsað sér. Þannig fullyrti hún blákalt að það hindraði faglega og hlutlausa umræðu um fyrirtæki ef það væri „útbreidd skoðun“ að fyrirtækið nyti „dálætis hjá forsætisráðherranum“! – En með leyfi að spyrja, hvern hindrar það í faglegri umræðu? Hér talar einfaldlega hver fyrir sig og sig einan. Ætli Ingibjörg átti sig á hverju hún er að ljóstra upp um eigin þankagang? Hún er einfaldlega að staðfesta það, sem margir hafa lengi talið sig sjá, að hatur hennar og nánustu samstarfsmanna hennar á þessum tiltekna forsætisráðherra er slíkt að þau líta ekkert réttu auga sem þau aðeins ímynda sér að hann sé ánægður með. Bara að sú skoðun heyrist að þessi ráðherra sé hrifinn af tilteknu fyrirtæki veldur því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir getur ekki tekið málefnalega afstöðu til fyrirtæksins! Hversu heitur má sá ofsi vera sem leiðir fólk til slíks? Og hversu ofsafengið má hatrið vera til að finnast þessi hugsunarháttur sinn svo sjálfsagður að greina frá honum í opinberri ræðu eins og vandamáli sem hái fleirum en ræðumanninum einum?
Hugsum okkur til gamans að þessi hataði forsætisráðherra, formaður þessa hataða stjórnmálaflokks, hefði lýst sjálfum sér þannig að hann gæti ekki metið fyrirtæki í réttu ljósi ef sú skoðun væri útbreidd að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir „hefði dálæti á því“! Hvað ætli fólk segði eiginlega um það? Hvað ætli allir álitsgjafarnir, allir svanirnir og herdísirnar sem speglar fjölmiðlanna eru alltaf að grafa upp, segðu um það? Og biðjum fyrir okkur, hvað ætli heilög Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segði um þann sem legði slíkt hatur á hana að hann missti sjónar á öllu öðru, hvenær sem hún kæmi til tals? Ætli hún myndi ekki telja að lífssýn þess manns yrði tæplega skýrð með aðferðum stjórnmálafræðinnar en myndi fremur heyra undir aðrar fræðigreinar?