Þriðjudagur 2. október 2001

275. tbl. 5. árg.

Fjármálaráðherra lagði í gær fram frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár og er óhætt að segja að frumvarpið sýni heldur lítinn metnað. Ja, í það minnsta ef menn gerðust svo djarfir að gefa sér að varaformaður Sjálfstæðisflokksins ætti að hafa áhuga á að draga úr ríkisútgjöldum og lækka skatta. Sem dæmi um metnaðarleysið má nefna að tekjuskattar einstaklinga halda áfram að hækka á næsta ári. Þeir hækka um 6 milljarða króna frá þessu ári í 54 milljarða króna. Frá 1999, eða á þremur árum, munu tekjuskattar einstaklinga hafa hækkað um 17 milljarða króna, eða um 46%. Nú getur fjármálaráðherra svo sem bent á að þessi hækkun stafi af því að tekjur almennings hafi aukist og því greiði hann hærri skatta. Þetta er auðvitað rétt og ánægjulegt að almenningur skuli hafa efnast, en þessi kaupmáttaraukning almennings hefur þýtt það að hann greiðir ekki aðeins fleiri krónur í ríkissjóð heldur líka hærra hlutfall launanna. Ástæðan er sú að vegna persónufrádráttarins þyngist skattbyrðin eftir því sem tekjurnar hækka. Það er því furðulegt að ekki skuli vera hægt að lækka aðeins tekjuskattshlutfallið og láta fólk njóta stærri hlutar kaupmáttaraukningarinnar. En bíðum við, rétt er að halda því til haga sem vel er gert. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heilum 0,33% í tekjuskattslækkun. Þetta er að vísu nokkuð sem var ákveðið í tengslum við gerð kjarasamninga, en samt, fjármálaráðherra stóð við það og enginn skyldi gera lítið úr því afreki.

Það skyggir þó dálítið á að þessi 0,33% verða heldur ræfilsleg þegar þau eru borin saman við útgjöld sem fjármálaráðherra hafði sérstakan áhuga á að bæta á ríkissjóð, en það er fæðingarorlofssjóðurinn alræmdi. Fjármálaráðherra kom þessum sjóði á í trássi við samþykktir eigin landsfundar og á næsta ári ætlar hann að eyða 4,6 milljörðum króna af fé skattgreiðenda í sjóðinn, tæpum tveimur milljörðum króna hærri upphæð en á þessu ári – og þótti þó sumum nóg um. Ef fjármálaráðherra hefði hlíft skattgreiðendum við fæðingarorlofssjóðnum hefði hann getað lækkað tekjuskattinn um 8,5% í krónum talið. Þetta hefði t.d. að meðaltali þýtt að þeir sem nú greiða 50.000 krónur mánaðarlega í staðgreiðslu skatta hefðu fengið rúmum fjögur þúsund krónum hærra í útborguð laun á mánuði. Einhverja hefði sennilega munað um þetta en það breytir engu þegar kaupa þarf atkvæði lítils en háværs þrýstihóps.

Í fjölmiðlum í gær stærði fjármálaráðherra sig af því að hafa lækkað skuldir ríkisins svo mikið að nú hefði ríkið nokkrum milljörðum króna meira til ráðstöfunar en ella og þess vegna væri það betur undir niðursveiflu búið. En er þetta trúverðugt þegar ráðherrann sjálfur eyðir vaxtasparnaðinum í ný gæluverkefni? Var einungis verið að greiða niður skuldir til að hægt væri að færa útgjöld úr liðnum „vaxtagreiðslur“ yfir í liðinn „gæluverkefni“? Þá mun einhverjum þykja að til lítils hafi verið barist.