Þegar menn halda því fram að eitthvað sé „krafa þjóðarinnar“, „vilji fólksins“ eða „viðhorf almennings“ má undantekningarlítið ganga að því vísu að viðkomandi hafi ekkert máli sínu til stuðnings, jafnvel minna en ekkert. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins dagsettu í gær segir meðal annars: „Viðhorf almennings í Evrópu eru með öðrum orðum að breytast í þá veru að stór og eldsneytisfrekur bíll er álitinn tákn um græðgi og tillitsleysi gagnvart náunganum og umhverfinu, en litlir og umhverfisvænni bílar tákn um samkennd og félagslega ábyrgðartilfinningu.“
„… styðjast höfundar Reykjavíkurbréfa Morgunblaðsins um umhverfismál jafnvel við skrif manna sem geimverur hafa áður numið á brott og sem bera nú sérstaka ígræðslu frá geimverunum í höfði sínu sem færast til þegar læknar reyna að fjarlægja þær …“ |
Þessu heldur höfundur bréfsins fram þegar sala á jeppum og jepplingum og stórum fjórhjóladrifnum fólksbílum hefur slegið öll fyrri met á undanförnum árum. En gott og vel, ef til vill lítur fólkið sem keypt hefur þessa bíla á sjálft sig sem gráðugt og tillitslaust. Mikið er þá á sig lagt til að komast í hóp gráðugra og tillitslausra en þessir bílar eru skattlagðir af einstökum fantaskap, eru rándýrir fyrir vikið og ekki hlaupið að því að safna fé fyrir þeim í þessum yfirgengilega skattaþrældómi. Þessir háu skattar leiða ekki aðeins til þess að erfitt er að eignast vel útbúna bíla heldur einnig til óæskilegrar notkunar á gömlum bílskrjóðum sem eru bæði hættulegir í umferðinni og menga margfalt meira en nýir bílar. Menn seinka því með öðrum orðum að endurnýja bíla sína þegar þeir eru skattlagðir mjög mikið. Það ætti einnig að blasa við höfundi Reykjavíkurbréfsins að þegar menn kaupa sér sparneytna bíla er það einmitt vegna þess að þeir eru sparneytnir og þar með ódýrari í rekstri en ekki til að fá fálkaorðuna fyrir „samkennd og félagslega ábyrgðartilfinningu“.
Það kemur ekki síður á óvart að í sama Reykjavíkurbréfi og ráðist er gegn stórum og eldsneytisfrekum bílum er mælt sérstaklega með „almenningssamgöngum“. Eins og menn vita eru stærstu og eldsneytisfrekustu bílarnir á götum Reykjavíkur gul ferlíki sem ekið er nær mannlausum en með miklum hávaða og fyrirgangi um borgina í nafni almenningssamgangna.
Blessaður almenningurinn, á hann er ekki aðeins klínt viðhorfum sem hann hefur alls ekki heldur eru gulu eldsneytishákarnir kenndir við hann að ósekju.
Í Reykjavíkurbréfinu segir einnig um ástandið í nokkrum löndum Evrópu: „Í kjölfar sívaxandi mengunar og aukinnar meðvitundar um nauðsyn þess að nýta vel þær náttúruauðlindir sem gengið geta til þurrðar hafa neytendur brugðist við vaxandi þrýstingi umhverfisverndarsinna um að kaupa sér minni og sparneytnari bíla.“ Vefþjóðviljinn leyfir sér að auglýsa eftir þeirri borg Vestur-Evrópu þar sem loftmengun er „sívaxandi“. Loftgæði á Vesturlöndum hafa þvert á móti aukist á síðustu áratugum. Blýbætiefni eru horfin úr bílabensíni og þar með hættan sem stafaði af blýmengun. Brennisteinn hefur einnig snarminnkað í eldsneyti sem dregur úr magni svifryks. Annarri efnasamsetningu eldsneytis er einnig breytt reglulega til að minnka þá útblástursmengun sem plagar fólk mest. Vélarframleiðendur hafa einnig stórbætt framleiðslu sína og mengunarvarnarbúnaði hefur verið bætt í bíla. Allt tal um sívaxandi mengun er því jafnfráleitt og að kenna mannlausa strætisvagna við almenning. Fullyrðingar í Reykjavíkurbréfinu um sívaxandi mengun eru því hreinn uppspuni og áhyggjuefni hvað fjallað er um umhverfismál af mikilli vanþekkingu í þessum bréfum sem kennd eru við Reykjavík. Eins og áður hefur komið fram hér í Vef-Þjóðviljanum styðjast höfundar Reykjavíkurbréfa Morgunblaðsins um umhverfismál jafnvel við skrif manna sem geimverur hafa áður numið á brott og sem bera nú sérstaka ígræðslu frá geimverunum í höfði sínu sem færast til þegar læknar reyna að fjarlægja þær.
Höfundur Reykjavíkurbréfsins minnist einnig á þær „náttúruauðlindir sem gengið geta til þurrðar“. Vefþjóðviljinn hélt að svartagallsraus um auðlindaþurrð væri orðið svo útjaskað að jafnvel öfgafyllstu umhverfisverndarsinnar hefðu snúið sér að öðru. Í hverju birtist væntanleg auðlindaþurrð? Hafa jarðefni, málmar, eldsneyti eða fæða hækkað í verði að undanförnu vegna þess að skortur hefur gert vart við sig? Nei, þvert á móti hefur verð lækkað. Það hljómar kannski ótrúlega að það sem af er tekið skuli lækka í verði þrátt fyrir aukna eftirspurn en menn mega ekki gleyma öllum nýjungum sem leysa gömul efni af hólmi.