Nú hefur hið alþjóðlega fjölleikahús umhverfisverndarsinna og annarra skemmdarvarga fært sig til Genúa á Ítalíu til að mótmæla – alþjóðavæðingunni. Þeir hafa hitað upp að undanförnu með nokkrum bréfasprengjum. Einhverra er þó saknað eftir óeirðirnar í Gautaborg á dögunum. Þeir hafa ýmist verið dæmdir til tukthúsvistar eða bíða dóms fyrir skemmdarverk og líkamsárásir. En þessi alþjóðlegi sirkus gegn alþjóðavæðingunni hefur það einmitt ofarlega á stefnuskrá sinni að stuðla að friði í heiminum. Þess vegna þarf að loka stórum hluta borga til að koma í veg fyrir að friðarsinnarnir brjóti allt og bramli. Eigendur veitingahúsa og verslana kjósa margir að setja hlera fyrir glugga þegar friðarsinnarnir eru væntanlegir í bæinn. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að menn fái að láta skoðanir sínar í ljósi – líka rangar skoðanir – en þegar þeir kjósa að gera það með ofbeldi og með þeim afleiðingum að öðrum borgurum stafar ógn af, er engin ástæða til að taka á því með silkihönskum.
Þessum umrædda skríl, sem nýtir allar helstu afurðir hins frjálsa markaðar til að skipuleggja barsmíðar og eignaspjöll, er víst mjög í nöp við þennan sama markað. Einn helsti eiginleiki þessa markaðar er að anna þeirri eftirspurn sem verður til. Fyrirtækið Rockstar Games hefur nú sent frá sér tölvuleikinn State of Emergency fyrir PlayStation 2. Leiknum hefur verið þannig lýst að leikmaður fái stig fyrir að velta við bílum, koma af stað ólátum milli andstæðra fylkinga og fyrir að ganga í skrokk á vegfarendum. Flest stig fást þó fyrir að rota óeirðalöggu og sparka í hana þar sem hún liggur í götunni.
Nú geta umhverfisverndarsinnar því notið alls þess sem óeirðir hafa upp á að bjóða með stýripinna við sjónvarpstækið. Það einkennilega er þó að meðal þeirra sem kunna sjálfsagt vel að meta þennan nýja kost er græninginn og utanríkisráðherra Þýskalands, Joschka Fischer, sem á árum áður var meðlimur í götugenginu Puttzgruppen. Fischer vann sér það til frægðar að lemja lögreglumann í götuna árið 1970. Og forsætisráðherra Frakka, Lionel Jospin, var einnig meðlimur í svipuðum félagsskap Trotskíista og gekk upphaflega í flokk sósíalista sem moldvarpa fyrir Trotskíistana. Skrílinn á götunum í dag vantar því ekki fyrirmyndir meðal stjórnmálamanna í Evrópu.