Helgarsprokið 7. mars 2010

66. tbl. 14. árg.

Þ egar þetta er ritað á sunnudagsmorgni hafa lokatölur þjóðatatkvæðagreiðslunnar ekki borist úr tveimur kjördæmum. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að meirihluti kosningabærra manna á Íslandi sagði NEI í atkvæðagreiðslunni.

Það var ekki aðeins mikill meirihluti, um 93%, þeirra sem mættu á kjörstað sem sögðu NEI heldur einnig meirihluti þeirra sem voru á kjörskrá. Um 125 þúsund kjósendur af um 230 þúsund á kjörskrá felldu lög ríkisstjórnarinnar.

Jafnvel þótt allir landsmenn hefðu mætt á kjörstað hefði úrslitunum ekki verið haggað. NEI hefði orðið ofan á þótt allir hefðu mætt. Þótt allir sem sátu heima í gær hefðu skundað á kjörstað og sagt JÁ hefðu lögin engu að síður verið felld.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra getur því hætt að hafa áhyggjur af hver kjörsóknin var nákvæmlega. Í gærkvöldi taldi Steingrímur kjörsóknina hafa verið slaka en hins vegar hefðu merkilega margir sagt JÁ! Þeir 125.000 kjósendur sem sögðu NEI eru vart marktækir að mati Steingríms en þeir 2.500 sem sögðu JÁ sendu mikil tíðindi. Maður sem talar á þessa leið fyrir sínum málstað er sennilega búinn með alla sjálfsvirðingu.

Niðurstaða í atkvæðagreiðslu af þessu tagi verður ekki meira afgerandi en þegar meirihluti kosningabærra manna greiðir einum kosti atkvæði sitt. Í þessu tilviki er sú niðurstaða sérlega áhugaverð þegar það er haft í huga að ríkisstjórnin og fjölmiðlar hennar ráku fyrir því áróður að atkvæðagreiðslan væri markleysa, tilgangslaus og skrípaleikur. Daginn fyrir kjördag var það aðalforsíðufrétt FréttablaðsinsJóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ætlaði að sitja heima á kjördag. Jóhanna ætlar að sitja heima sagði í aðalfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins. Það skorti því ekkert á kynninguna á línunni frá ríkisstjórninni.

Í forsíðuviðtalinu sagði forsætisráðherra að sér þætti atkvæðagreiðslan „markleysa“ og „mjög dapurlegt að fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun lýðveldisins verði um lög sem þegar eru orðin úrelt.“

Samt beitti hún sér ekki fyrir afnámi þessara úreltu laga.

Niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni í gær var ákaflega ánægjuleg. Ríkisstjórnir þeirra þriggja landa sem undanfarið ár hafa reynt að hneppa Íslendinga í Icesave-ánauðina fengu allar tímabæra ráðningu.