Hér hefur stundum verið vitnað í skrif í fasteignablað Morgunblaðsins. Í fyrsta fasteignablaði nýrrar aldar, sem kom út í gær, ritar Guðrún Árnadóttir formaður félags fasteignasala grein um ástand og horfur á fasteignamarkaði. Guðrún segir m.a.: „Það háir þó starfi fasteignasala að löggjöf skortir um fasteignaviðskipti og því eru ekki skýrar eða skráðar reglur til að styðjast við þegar ágreiningsmál koma upp. Dómsmálaráðherra hefur þó tekið á þessu máli og nú er í vinnslu lagafrumvarp um viðskipti á þessu sviði. Til viðbótar má telja brýnt að settar verði reglur um úttektir eða skoðun á fasteignum, þ.e.a.s. að fyrir liggi ástandsskýrslur löggildra skoðunarmanna um fasteignir þegar þær eru boðnar til sölu.“
Ekki skal efast um að hér fylgir góður hugur máli, eða eins og Guðrún segir sjálf: „slíkar reglur sem hér hafa verið nefndar myndu án efa gera fasteignaviðskipti öruggari fyrir báða aðila“. Þó má efast um að þetta góðverk komist á koppinn án nokkurs tilkostnaðar fyrir nokkurn mann. Nú þegar er nægt framboð af sértækum lögum sem skýra eiga mál og leysa hvers manns vanda – en gera það alls ekki. Framboðið er raunar svo mikið að það er full vinna fyrir borgarana að fylgjast með. Það er sama hversu menn þaulhugsa ný lög, þeim tekst aldrei að sjá öll tilvik í mannlegum samskipum fyrir. Nú þegar gildir sama laga venja um viðskipti með fasteignir og aðra hluti og engin þörf á löngum lagabálkum um þau út af fyrir sig.
Síðara málið sem formaður fasteignasala telur brýnt hljómar einnig vel. Væri ekki gott ef fyrir lægi vönduð „ástandsskýrsla löggildra skoðunarmanna“ í hvert sinn sem fasteign er seld? Vafalaust kæmi það sér vel fyrir einhverja. Til dæmis þá sem láta hvort eð er gera slíkar skýrslur fyrir sig án lagaboðs en ekki síður þá sem hefðu atvinnu af því að gera slíkar skýrslur. Það er nefnilega ekkert sem bannar kaupendum eða seljendum að láta vinna slíka skýrslu. Þeir sem eru í vafa um ástand fasteignar eiga ekki að hika við að fá sér fróðari mann til að skoða eignina. Það er óþarfi að leggja þennan aukakostnað á aðra sem treysta eigin hyggjuviti. Sumum stendur líklega nokk á sama um álit löggiltra aðila þar sem rífa á fasteignina og byggja nýja eða endurnýja að stórum hluta. Og hvað með sérfróðan mann, þarf hann að kaupa annan sérfróðan til að segja sér til? Og hvað með notaða bíla, eiga ekki bifvélavirkjar að meta alla notaða bíla?