Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður er á móti vatnsaflsvirkjunum á náttúrverndarforsendum en úr þessum virkjunum kemur rafmagn. Kolbrún lýsti því hins vegar yfir í Kastljósi ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að ríkinu beri að niðurgreiða rafmagn til íslenskra garðyrkjubænda svo þeir geti framleitt meira „lífrænt“ grænmeti en innflutt grænmeti sé ekki endilega búið þessum lífrænu kostum. Nú hélt Vef-Þjóðviljinn að grænmeti sem ræktað er innandyra í rafknúnum ljósabekkjum í gróðurhúsum íslenskra garðyrkjubænda gæti vart talist lífrænt í samanburði við það sem sprettur við hagstæðari skilyrði erlendis undir náttúrulegu sólskini.
Því miður virðist það orðin vel nothæf þumalputtaregla að þegar orðin lífrænt, vistvænt og náttúruvernd eru notuð í pólitískum umræðum er notandinn í besta falli að segja hálfsannleik.
Nokkur umræða hefur orðið um hvort skynsamlegt sé að sameina Landsbanka Íslands og Íslandsbanka hf. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra hefur af því tilefni látið í ljós þá skoðun að slíkt kunni að vera óheimilt vegna ákvæða samkeppnislaga. Ekki er gott að segja hvers vegna ráðherrann heldur þessu fram. Að minnsta kosti ættu flestir að sjá – hvað svo sem þeim kann að þykja um þessa sameiningarhugmynd – að samkeppnislög stæðu henni tæplega í vegi. Hlutabréfum ríkisins í Landsbankanum verður ekki ráðstafað nema samkvæmt lögum og ef sett yrðu lög vegna sameiningar bankans við annan banka myndu þau lög ganga framar samkeppnislögum.
Samkeppnislög virðast heldur ekki koma í veg fyrir að sami aðili eigi meiri hluta í bæði Landsbanka- og Búnaðarbanka í dag en handhafi meiri hlutans er einmitt Valgerður Sverrisdóttir.