Þriðjudagur 4. janúar 2000

4. tbl. 4. árg.

Nú á dögum er vinsælt að láta ríkið gera samninga við hina ýmsu aðila um að það fái að greiða þeim fé. Eitt dæmi um slíkan samning er búvörusamningurinn um niðurgreiðslur til landbúnaðar og annað er samningur um að ríkið niðurgreiði kvikmyndir. Það þykir víst fínt að festa slík fjárútlát með samningum í stað þess að ríkið ákveði einfaldlega að styrkja tiltekna starfsemi ef því sýnist svo. Með því að gera slíkan „samning“ getur ríkið þó allt í einu staðið frammi fyrir því að þurfa að brjóta samning, ef ekki er til fé til að standa við hann, í stað þess að hætta einfaldlega niðurgreiðslunum.

Nú eru uppi hugmyndir um að taka þetta fyrirkomulag upp við almenningssamgöngur á landsbyggðinni, en hætta þess í stað að endurgreiða þungaskattinn. Í skýrslu sem samgönguráðherra hefur látið taka saman kemur fram að auka þurfi útgjöld ríkisins til þessa málaflokks. Samgönguráðherra mun varla svara þessu kalli, enda mun boð dagsins frekar vera samdráttur hins opinbera en aukin útgjöld og þensla.

Furðuleg sjónarmið koma einnig fram í fyrrnefndri skýrslu um hlutverk ríkisvaldsins. Þar er lagt til að hlutverk þess verði að skilgreina æskilega ferðatíðni áætlunarbíla á stofnleiðum og semja við fyrirtæki um kaup á þeirri þjónustu. Auk þess á ríkið samkvæmt þessu að veita nægu fjármagni til samgangna á svokölluðum héraðsleiðum, en það eru leiðir fyrir utan þjóðveg eitt.

Hvernig stendur á því að nokkrum manni dettur í hug að ríkið hafi yfirleitt einhverju hlutverki að gegna í almenningssamgöngum? Og hvernig á ríkið að meta æskilega ferðatíðni. Slíkar aðferðir við dreifingu á vörum og þjónustu voru reyndar til þrautar áratugum saman austur í Sovétríkjunum og gengu einfaldlega ekki upp. Þær hafa líka verið reyndar hér á landi (og eru því miður enn notaðar á sumum sviðum) og hafa reynst óhagkvæmar. Staðreyndin er sú að ríkið getur ekki metið þörfina fyrir þjónustu og vörur á þessum markaði frekar en öðrum. Eina leiðin til að komast að raun um þörf er að stilla framboð og eftirspurn af með verði. Verðið er skilaboðin til kaupenda og seljenda. Ríkisvaldið fær engin slík skilaboð en hlustar þess í stað á kröfur þrýstihópa sem ekkert hafa í huga annað en þrönga sérhagsmuni sína.