Mánudagur 27. desember 1999

361. tbl. 3. árg.

Í Auðlegð þjóðanna segir Adam Smith svo frá að menn úr sömu grein atvinnulífsins komi varla saman, jafnvel þó það sé einungi til að skemmta sér, án þess að það leiði til einhvers konar samsæris gegn almenningi eða leynilegs samkomulags um verðhækkanir. Þessi ummæli hafa óspart verið notuð af fylgismönnum samkeppnisreglna og íhlutunar ríkisins í frjálsa keppni fyrirtækja. Höfundar Skýrslu Samkeppnisráðs um stjórnunar- og eignatengsl, leiddu af þessum orðum Smiths þá skoðun að samkeppnisreglur séu nauðsynlegar. Eins og áður hefur verið getið hér í Vef-Þjóðviljanum eru þessi orð Smiths bæði slitin úr samhengi og rangtúlkuð af skýrsluhöfundum (og fleirum sem tekið hafa þessa skýrslu sem áreiðanlega heimild) því að næsta setning í Auðlegð þjóðanna hljóðar á þá leið að það sé ógjörningur að koma í veg fyrir slíkar samkomur með lagasetningu. Slíkri lagasetningu væri ekki hægt að framfylgja án þess að ganga gegn frelsi og réttlæti.

Adam Smith
Adam Smith

„People of the same trade seldom meet together, even for the merriment and diversion, but the conversation ends in a conspiracy against the public, or in some contrivance to raise prices. It is impossible indeed to prevent such meetings, by any law which either could be executed, or would be consistent with liberty and justice. But though the law cannot hinder the people of the same trade from sometimes assembling together, it ought to do nothing to facilitate such assemblies; much less render them necessary.“

Um það leyti sem Adam Smith skrifaði Auðlegð þjóðanna var öllum ljóst að einokun var verk ríkisins. Orðið sjálft – monopoly – táknaði sérstök forréttindi sem stjórnandi ríkisins á þeim tíma – monarch – veitti. Ástæður þess að konungar veittu mönnum einokun voru einkum tvær. Annars vegar gat slík einokun gat verið tekjulind eins og Íslendingar fengu að kynnast þegar Danakonungur seldi einkaleyfi til verslunar á Íslandi. Hins vegar gat einnig verið ódýrara að veita mönnum slík forréttindi en að styrkja þá með beinum fjárframlögum úr pyngju konungs. Nú rúmum tveimur öldum eftir útkomu Auðlegðar þjóðanna er það hins vegar svo að ríkið hefur sett sérstök lög til höfuðs einokun en er engu að síður nú sem fyrr eina uppspretta einokunar. Þau boð og bönn, sérleyfi, ríkisstyrkir og ríkisrekstur sem koma í veg fyrir að einstaklingar geti spreytt sig á atvinnurekstri standa að mörgu leyti óhögguð þótt til sé lagabálkur sem ber nafnið samkeppnislög og þótt ríkið reki sjálft sérstaka stofnun sem kennd er við samkeppni. Þessi stofnun virðist ansi upptekin af því að beina sjónum manna frá þeim samkeppnishömlum sem ríkið ber ábyrgð á. Til þess gerir hún atlögur að einkafyrirtækjum sem starfa á frjálsum markaði án nokkurra ívilnana ríkisins. Stofnunin setur sig á háan hest gagnvart stjórnendum fyrirtækja og segir þeim jafnvel hvað er hagkvæmt og hvað ekki eins og frægt varð þegar eitt bakarí keypti annað. Hún hafnar því hins vegar að afnema ríkisstyrki til nokkurra rithöfunda sem er augljóslega ósanngjarnt gagnvart öðrum rithöfundum.