Miðvikudagur 7. júlí 1999

188. tbl. 3. árg.

Í síðustu viku kom hingað til lands starfsmaður systurstofnunar Samkeppnisstofnunar í Bretlandi. Var hann, rykfallinn embættismaður af kontór í London, ekki seinn að lýsa því yfir að það væri fráleitt að það liðist nokkru fyrirtæki í Bretlandi að ná til sín 60% viðskipta á matvörumarkaði eins og Baugur hefur á höfuðborgarsvæðinu. Bresk samkeppnisyfirvöld myndu umsvifalaust grípa í taumana. Ekki kom fram í máli kerfiskarlsins hvort æskilegt væri að setja þá neytendur í taum sem flykkjast í verslanir Baugs eða hvort loka ætti nokkrum Bónus verslunum. Hann taldi það algjört lágmark að hafa sex matvöruverslanakeðjur á hverjum markaði svo að líklega yrði að loka nokkrum Bónusverslunum á nefið á neytendum til að þóknast samkeppnisyfirvöldum. Það fylgdi þó ekki sögunni hvort í bæjum í Bretlandi sem hafa svipaðan íbúafjölda og höfuðborgarsvæðið séu almennt starfandi að minnsta kosti sex keðjur matvöruverslana.

Einn góðan veðurdag fyrir nokkrum árum var skipt um nafn á Verðlagsstofnun ríkisins en hún hafði um árabil haft það hlutverk að koma í veg fyrir samkeppni milli fyrirtækja með því að ákvarða „rétt verð“ á lífsnauðsynjum til almennings. Hið nýja og kaldhæðnislega nafn var Samkeppnisstofnun og þennan dag áttu starfsmenn stofnunarinnar að snúa sér að því að tryggja samkeppni milli fyrirtækja. Því miður hefur starfsmönnunum ekki verið sagt nægilega skýrt frá því að það er ekki skynsamlegt að beita sömu aðferðum til að tryggja samkeppni og þeir beittu til að koma í veg fyrir hana. Samkeppnisstofnun hefur hvað eftir annað skipt sér með afar undarlegum hætti af ákvörðunum sem eigendur einkafyrirtækja á opnum markaði hafa tekið til að bæta rekstur sinn. Ekki er gott að sjá hvernig starfsmenn á opinberum stofnunum geta reiknað út hvort það kemur neytendum betur að hafa tvær, þrjár eða fjórar matvöruverslanir, bakarí, olíufélög eða flugfélög. Það er jafn vonlaust og að reikna út „rétt verð“ á lífsnauðsynjum. Hagur neytenda batnaði mjög þegar opinberir starfsmenn hættu að reikna út „rétt verð“ á lífsnauðsynjum. Vonandi hætta þeir líka að reikna út „réttan fjölda“ af fyrirtækjum og „rétta markaðshlutdeild“ þeirra.

Rætt var við Einar Val Kristjánsson framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins hf. í Hnífsdal í Morgunblaðinu á sunnudag um vanda vestfirskra sjávarútvegsfyrirtækja en fyrirtækið hefur verið rekið með hagnaði nánast frá stofnun þess árið 1941. Um ástandið fyrir vestan segir Einar:  „Það eru settar leikreglur í þessu kerfi og við höfum löngu ákveðið að spila eftir þessum leikreglum. En það má kannski segja að við höfum verið heldur seinir að fara af stað með að ná okkur í meiri aflaheimildir. Þá tel ég að óttinn við að fá fjármagn inn á svæðið hafi verið full mikill. Það kaupir enginn hlutabréf í þessum félögum ef þau skila ekki hagnaði og vafalaust hefði mátt koma þessum félögum inn á opna markaði fyrr. Okkur hefur vantað fjármagn til þess að auka veiðiheimildir fyrirtækjanna. Við höfum eftir sameininguna við Frosta í Súðavík, heldur aukið við kvótann en hitt. Kvótinn leitar og mun leita þangað sem reksturinn er bestur. Það líðst engum til lengdar að vera með lélegan rekstur.“