Fimmtudagur 9. september 1999

252. tbl. 3. árg.

Áður fyrr fóru íslenskir verkalýðsleiðtogar gjarnan til Moskvu í boði þarlendra skattheimtumanna, til að vera viðstaddir 1. maí hátíðarhöld. Ráðstjórnarríkin voru enda sérstök fyrirmynd þessum verkalýðsleiðtogum um innheimtu opinberra gjalda og félagsgjalda og um allt það annað sem að vexti og viðgangi verkalýðsfélaga lýtur. Þessi lönd voru líka heimkynni byltinganna, hvar verkalýðurinn var sagður hafa brotist undan oki borgarastéttarinnar og firringar auðvaldshyggjunnar. Um sama leyti og halla fór undan fæti fyrir skattheimtumönnum í Moskvu, fækkaði ferðum íslenskra verkalýðsleiðtoga í austurveg og eru þær nú aflagðar með öllu. Lögfræðingafélag Íslands, eitt íslenskra verkalýðsfélaga, sker sig þó úr en þar héldu menn fyrir skömmu inn fyrir múra félagshyggjunnar.

Það er ekki undrunarefni, í ljósi starfshátta Lögfræðingafélags Íslands og efnistaka tímarits lögfræðinga að þetta sama félag skuli einmitt efna til hópferðar félagsmanna sinna til Kína, af öllum heimsins löndum. Eitt helsta einkenni þessa verkalýðsfélags og tímarits þess er einmitt þröngt skilgreind lögfræðileg framhyggja (legal positivism) og sú ályktun að öll heimsins vandamál séu tilkomin vegna ónógra opinberra lagasetninga og ónógrar tæknilegrar ráðgjafar lögfræðinga (og þá helst íslenskra).

Í Kína setja menn nefnilega lög um næstum allt. Í Kína eru til lög um hversu mörg börn hjón mega eignast, um hvaða bækur má lesa og hvaða bækur má skrifa, um hvað má hlusta á og hvað má segja, um hvað má horfa á og hvað má sýna. Í Kína hefur líka ræst langþráður draumur lögfræðilegra framhyggjumanna en þar til fyrir einum mánuði síðan voru þar í gildi lög sem kváðu á um að ekki mætti greina frá hitastigi sem væri hærra en 37 gráður á Celcius. Í China Youth Daily segir að ríkisstjórnin hafi ekki viljað að almenningur gerði sér grein fyrir því að mikill hiti og mengun drægi úr lífsgæðum í kínverskum borgum.