Laun nokkurra ríkisstarfsmanna voru að hækka. Það þýðir að laun allra annarra landsmanna voru að lækka. Í þessum hópi sem fékk hækkun er forseti Íslands. Forseti Íslands hefur gert ástand vega á Barðaströnd að umtalsefni í krafti embættis síns. Það var þó ekki á stefnuskrá hans fyrir forsetakosningar að skipta sér af vegaáætlun og fjárveitingum Alþingis til vegaframkvæmda. Hins vegar lýsti hann því yfir að óeðlilegt væri að forseti Íslands nyti skattfríðinda. Forseti Íslands greiðir ekki tekjuskatt eins og aðrir landsmenn. Nú var kaupið hans að hækka í 598.000 krónur á mánuði. Hann fær þessar 598.000 krónur í vasann. Aðrir landsmenn þurfa að greiða um 200.000 krónur í skatt af slíkri upphæð. Laun forsetans eru því í raun 935.000 krónur á mánuði.
Í Vef-Þjóðviljanum á sunnudag var rætt um að Alþýðuflokkurinn hefði stækkað en Alþýðubandalagið minnkað í kosningunum. En þegar betur er að gáð og nýkjörnir þingmenn eru flokkaðir eftir uppruna sínum kemur í ljós að 7 Alþýðuflokksmenn náðu kjöri, 10 Alþýðubandalagsmenn, 3 úr Þjóðvaka og 3 úr Kvennalista. Þetta er afar lítil breyting frá kosningum árið 1995 en þá fékk Alþýðuflokkurinn 7, Alþýðubandalagið 9, Þjóðvaki 4 og Kvennalisti 3. Einu kosningatíðindin af vinstri vængnum eftir allt sameiningarbröltið eru því þau að Alþýðubandalagið vann einn mann af Þjóðvaka! Árni Steinar Jóhannsson felldi Ágúst Einarsson af þingi.
(Í þessum reikningum er Kristni Gunnarssyni núverandi Framsóknarmanni sleppt, Kolbrún Halldórsdóttir skrifuð á Kvennalistann og aðrir skrifaðir á þá flokka sem þeir voru í við kosningarnar 1995).