Marga hefur eflaust furðað hvað rólegt hefur verið yfir pólítíkinni í Hafnarfirði í sumar. Hafnarfjarðarpólítíkin var eilíft fréttaefni nær allt síðasta kjörtímabil eða frá því Guðmundur Árni Stefánsson skildi bæjarsjóð eftir í rjúkandi fjármálarúst. Í sjónvarpsfréttum í vikunni hefur skýringin á þessu logni í Firðinum þó blasað við mönnum. Guðmundur Árni Stefánsson og Magnús Jón Árnason hafa verið uppteknir við að berja saman málefnaplaggi þess hóps úr Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi sem ætlar að sameina vinstri menn með því að kljúfa báða flokkana og sameina brotin hinni hámenntuðu Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Hafnarfjarðarsirkusinn var semsé á leiðinni í bæinn.
Meðal skemmtiatriða er hópurinn úr Alþýðubandalaginu sem hættir að vera á móti NATO í fjögur ár en telur sjálfgefið að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna renni út um leið og Ísland verður fíkniefnalaust árið 2002. Kratarnir hætta að krefjast inngöngu í ESB næstu árin en vilja samt inngöngu. Þessir sömu kratar hafa alltaf gagnrýnt að ekki megi ræða ESB. Stofnað verður sérstakt jafnréttisráðuneyti Guðnýjar Guðbjörnsdóttur. Þar verða væntanlega engir lágmenntaplebbar. Skattar verða hækkaðir um 50 milljarða. Kvótakerfið verður aflagt en ekkert kemur í staðinn.
Íslendingum er mikill vandi á höndum. Niðurstöður samnorrænnar rannsóknar sem Vinnueftirlit ríkisins tók þátt í hefur leitt í ljós að engin af þeim heyrnarskjólum sem seld eru hér á landi uppfylla mikilvægar reglur Evrópusambandsins um þann flókna tækjabúnað. Eitt af því sem sárlega vantar upp á eru íslenskar leiðbeiningar með skjólunum. Þetta hefur án nokkurs vafa valdið notendum þeirra miklum erfiðleikum og er vandséð að venjulegt fólk hafi getað komið skjólunum yfir rétta líkamshluta leiðbeiningalaust. Af þessu tilefni áréttar Vefþjóðviljinn við lesendur sína að heyrnarskjólin skal setja yfir eyrun (en það eru líkamshlutarnir sem standa hvor sínu megin út úr höfði manna), þannig að önnur skálin fari yfir hægra eyrað og hin yfir hið vinstra.