Helgarsprokið 4. október 1998

277. tbl. 2. árg.

,,Á ég að gæta bróður míns?“ er yfirskrift greinar í Lesbók Morgunblaðsins í gær. Með tilvísun í setninguna frægu úr Biblíunni vill höfundurinn Skúli Thoroddsen vekja lesendur til umhugsunar um ábyrgð einstaklingsins á náunganum. Og þetta er reyndar ekki svo sem fyrsta greinin sem birtist á síðum dagblaðanna með þessari yfirskrift. Þeir eru nefnilega ófáir sem bera fyrir sig samskipti Kains og Drottins í viðleitni sinni til að renna stoðum undir hugmyndir sínar um afskipti ríkisvaldsins af málefnum einstaklingsins, þó svo sem ekki sé það endilega tilfellið í áðurnefndri Morgunblaðsgrein. Það er kannski ekki að ástæðulausu að menn telja sig geta stuðst við þessa setningu Kains þegar þeir vilja réttlæta aukin ríkisumsvif. Mönnum hefur nefnilega, sem börnum, verið kennd sú umdeilda túlkun á þessum orðum Kains að sjálfur Drottinn sé afdráttarlaus ríkisafskiptasinni. Hann beinlínis vilji að ríkið hafi milligögnu um að menn gæti hvers annars. Þessu er þó fráleitt svo farið.

Kain, sem veit að hann hefur breytt ranglega með því að myrða bróður sinn, svarar spurningu Drottins um hvar bróðir hans sé á þann eina hátt sem honum finnst líklegast að Drottinn geti tekið undir: „Það veit ég ekki; á ég að gæta bróður míns.“ Líkt og lögfróður verjandi glæpamanns fyrir háttvirtum dómara kemur með frambærilega afsökun sem líklegt er að dómarinn geti fallist á. Enda fór það svo að Drottinn mótmælti ekki þessari málsvörn Kains. Honum hefði verið í lófa lagið að kveða bara upp úr um það, jú jú Kain, þér ber að líta eftir honum. En raunin varð ekki sú. Í staðinn vakti Drottinn máls á glæpnum sjálfum sem var í raun sú afskiptasemi Kains af lífi Abels sem kom fram í morðinu á hinum síðarnefnda. En þetta er víst bókmenntatúlkun sem hinir afskiptasömu samtíðarmenn okkar vilja ekki viðurkenna, eða hvað?

Það fylgir svo gjarna þessum útúrsnúningi ríkisafskiptasinna á setningunni úr Biblíunni að menn eigi að gæta sín á græðginni. En hvað er græðgi eða gróðavon? Jú sú von að hafa eitthvað að bjóða öðrum sem þeir hafi gagn að. Þeir sem vilja græða á markaðnum þurfa að fullnægja þörfum annarra – gera aðra betur setta en þeir voru áður.