Laugardagur 5. september 1998

248. tbl. 2. árg.

Rupert Murdoch, fjölmiðlamógúll og stjórnarmaður hjá Cato Institute, skrifaði fyrir nokkru grein um aukin umsvif hins opinbera. Í greininni, sem birtist að hluta í nýútkomnu blaði ungra sjálfstæðismanna, Stefni, bendir Murdoch á að þótt félagshyggjumenn hafi nú gefist upp á þjóðnýtingarstefnunni treysti þeir einstaklingum litlu betur en áður. Nú hafi þeir gripið til þess bragðs að setja reglur um alla mögulega hluti og geti í gegnum reglusetninguna haft stjórn á atvinnulífinu. Murdoch kemst þannig að orði um hremmingar atvinnulífsins í dag: „Allir sem eiga eða reka fyrirtæki hljóta að hafa tekið eftir þessum nýsósíalisma. Það er orðið margfalt erfiðara að ráða, reka, kaupa, selja og láta hlutina ganga sinn vanagang, en það var fyrir fimmtán eða tuttugu árum.“

Murdoch veltir því fyrir sér hver ástæða þessa vaxtar reglugerðanna sé og kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé uppgangur „nýrrar stéttar“ sem „þrífst á því að reka hið opinbera og stofnanir þess,“ en þar á hann bæði við atvinnupólitíkusa og opinbera starfsmenn.

Hann álítur þessa starfsmenn hins opinbera vera orðna sterkan þrýstihóp og fjallar m.a. um afleiðingar einkahagsmuna þeirra: „Það eru eiginhagsmunir skrifræðisstéttarinnar sem keyra áfram nýsósíalismann. Þetta er fólkið sem hagnast á reglugerðafarganinu, þetta er fólkið sem hrindir reglugerðunum í framkvæmd og sér um að eftir þeim sé farið. Barnfóstruríkið er þeirra vilji, enda eru þau í hlutverki barnfóstranna. Þau vilja láta stjórnmálin ráða, því þar eru þau við stjórn – hvort sem þau eru kjörin til þess eða ekki.“

Evrópusambandið er að mati Murdochs dæmi um völd þessara skriffinna og bendir hann á að áhrif sambandsins á líf fólks í aðildarríkjunum séu gríðarleg í gegnum yfirgripsmiklar og ítarlegar reglugerðir. Oft hafa verið nefnd dæmi um fráleitar reglugerðir ESB og bætir Murdoch einu í safnið þegar hann segir frá því að öllum Wellington stígvélum sem seld eru í Bretlandi verði að fylgja notendaleiðbeiningar með eftirfarandi skilaboðum: „Hvort stígvél skal máta fyrir notkun.“