„Fyrir þér ber ég fána þessa framtíðarlands,“ var sungið á kristnihátíð á Þingvöllum í fyrradag. Þegar haft er í huga hvernig stjórnvöld í ríkjum, sem sósíalistar hafa stjórnað, hafa komið fram við kristna menn og kristna kirkju er dálítið sérstakt að syngja baráttusöng íslenskra sósíalista á kristnihátíð. Forseti Íslands, sem neyddist til þátttöku í hátíðinni, hefur raunar oft gengið undir fána þess framtíðarlands – Sovét-Íslands – sem Halldór Laxness orti um í fyrrnefndum söng, Maístjörnunni. Og ef til vill var það til að gera forsetanum þátttökuna í hátíðinni bærilegri að söngurinn var sunginn, því óvíst er hvernig honum féll boðskapur hátíðarinnar, ef marka má orð hans í gegnum tíðina.
Auk þess sem sérstakt er að syngja Maístjörnuna á kristnihátíð verður að teljast nokkuð sérstakt að Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins sé ítrekað fenginn til þátttöku í athöfnum og hátíðum á vegum kirkjunnar. Þetta er sérstakt í ljósi þess hvernig Ólafur kaus að hagræða sannleikanum (svo orðavali sé stillt í hóf) fyrir forsetakosningarnar 1996 til að ná kjöri. Fyrir þessar kosningar sagði Ólafur orðrétt í sjónvarpsviðtali: „Auðvitað er ég kristinn maður eins og þorri þjóðarinnar og hef verið í þjóðkirkjunni, skírður og fermdur og trúi á þann guð sem að sérstaklega amma mín kenndi mér að trúa á.“ Þetta var fyrir kosningar þegar Ólafur taldi nauðsynlegt að fá atkvæði kristinna manna.
Nokkrum mánuðum áður – og einnig fimmtán árum áður – sagði Ólafur hins vegar í viðtölum að hann væri „nokkuð sannfærður um að guð væri ekki til“. Hann sagði einnig að „voðalega erfitt“ væri að sannfæra sig um að einn af þeim guðum sem trúað er á, það er sá sem ríki í kirkjunum hér heima, sé hinn eini rétti. Aðspurður hvað hann trúi á, sagðist hann eiginlega ekki vita það, en hann héldi að hann tryði „svona einna helst á manninn“. Nú er það auðvitað alfarið hans mál hvað hann trúir á og Vef-Þjóðviljinn hefur ekkert við það að athuga að menn trúi engu. Og hann hefur heldur ekkert við það að athuga að menn trúi, það er þeirra mál. Hins vegar eru ósannindi heldur leiðinleg og óneitanlega furðulegt að kirkjunni skuli þykja í himnalagi að forsetinn hafi notað trú(girni) fólks til að ná kjöri.
Þátttaka Ólafs Ragnars á kirkjuhátíð verður að teljast með því sérkennilegasta við hátíðina. En það er svo sem fleira sem er sérstakt – meira að segja aðfinnsluvert – en það er þátttaka skattgreiðenda í hátíðinni. Nú mun heildarkostnaður vegna kristnihátíðar nema tæpum 900 milljónum króna, en vegna Þingvallahátíðarinnar einnar hátt í 300 milljónum króna. Að eitt trúfélag á landinu geti farið í vasa skattgreiðenda og sótt þangað 900 milljónir króna til að halda sér hátíð er langt fyrir utan öll eðlileg mörk. Jafnvel þeir sem telja að skattgreiðendur eigi að bera einhvern kostnað af trúar- eða menningarlífi í landinu – en Vef-Þjóðviljinn er ekki í þeim hópi – hljóta að viðurkenna að þessi veisla er langt umfram nauðsyn. Og biskup, sem verður tíðrætt um græðgi ef hann sér menn nota farsíma eða aka um á nýjum bílum, hefði átt að óska eftir umsvifaminni hátíð ef hann meinar í raun það sem hann segir. Það er sérstakt að halda hátíð fyrir tæpar 900 milljónir króna en senda fátækum börnum á Indlandi á sama tíma 30 milljónir króna – 3,3% af kostnaðinum vegna hátíðarinnar – ef græðgin í þjóðfélaginu er óhófleg.
Annars er þetta sem hér hefur verið nefnt ef til vill ekki það sem helst stendur upp úr og er mesta furðuverkið við kristnihátíð. Líklega er sérkennilegast að biskup skuli í predikun sinni í hafa bent mönnum á að landrekskenningin byggist á misskilningi. Hér á Íslandi mætast austrið og vestrið, sagði biskup, og hér er það sem „Evrópa og Ameríka rekast saman og sameinast“.