Þær fréttir berast nú að hópur ferðamanna,…
nýkominn af Norðurlandi, stríði nú við leiðinlega magakveisu sem menn telja sig geta rakið til einhvers veitingastaðar nyrðra. Þetta er leitt að heyra og hætt við að ferðamenn þessir njóti sumarleyfis ekki eins vel og vonir þeirra hafa staðið til. Rétt er að benda þeim á, að þó menn liggi í magaveiki má þó nota tímann, t.d. til þess að kynna sér íslenskar bókmenntir. Þar má meðal annars mæla með íslensku skáldi er nefnist Sverrir Stormsker en Sverrir hefur margt sett saman sem gæti glatt hina magaveiku ferðamenn. Má t.d. nefna vísuna:
Liggur niður hraun og hjarn
heljarvegur langur,
fjarskalega leiðigjarn
er lífsins niðurgangur.
Aðrir ferðalangar fóru utan vegar í Herðubreiðarlindum…
og skemmdu gróður. Kappsamur landvörður skikkaði þá til að laga til eftir sig og lét þá hafa hrífur til verksins. Slík kappsemi er þó vafalaust undantekningin en ekki reglan hjá landvörðum í þjónustu hins opinbera. Þeir eru fáliðaðir og vafalaust ekki ofhaldnir af launum sínum. Þeir hafa heldur ekki persónulegra hagsmuna að gæta – laun þeirra hækka ekki þótt landsins sé vel gætt. Það er því brýnt að koma þjóðgörðum og öðrum náttúruperlum og landrými í vel skilgreinda einkaeign.
Menn fara betur með eigið fé en annarra. Fleira þarf ekki að segja um það mál.