Vefþjóðviljinn 237. tbl. 17. árg.
Vefþjóðviljinn er þeirrar skoðunar að mjög veruleg slagsíða sé á Ríkisútvarpinu. Auðvitað ekki á öllum þáttum þess, en þar sem er hlutdrægni sé hún til ákveðinnar áttar. Hún sé til vinstri og hún sé til stuðnings pólitískum rétttrúnaði hvers konar. Með því er ekki sagt að starfsmenn sitji á sérstökum plottfundum í hverri viku um það hvernig þeir geti hyglað einstökum stjórnmálaflokkum eða haldið öðrum niðri, heldur að þáttastjórnendur stjórna þáttum eftir eigin lífssýn og það hefur áhrif á öll efnistök. Það hefur áhrif á umfjöllunarefni, val viðmælenda, ákvörðun um spurningar og þess að spyrja ekki um eitthvað annað.
Þeir sem taka af ákefð til varna fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins biðja gagnrýnendur stundum um dæmi um hlutdrægnina sem sögð er vera á stofnuninni. Sú krafa er bæði sanngjörn og ósanngjörn. Sum dæmin eru vissulega sláandi en önnur virðast saklausari þegar horft er á þau ein og sér en ekki á heildarmynd. Auðvitað vita stuðningsmenn starfsmanna Ríkisútvarpsins að það er hægt að halda úti stöðugum þáttum á Rás 1, tala þar við hvern rétttrúnaðarvinstrimanninn á fætur öðrum um nauðsyn umhverfisskatta eða önnur áhugamál vinstrimanna, og sá, sem tekur einhvern einn þátt út úr og bendir á hann með stórum orðum, mun hjóma eins og ofstækismaður. Og sá sem bendir á skýr og ótrúleg dæmi, honum má alltaf svara með því að þetta sé bara eitt og eitt dæmi, það séu örugglega önnur dæmi jafn sláandi í hina áttina. Katrín Jakobsdóttir segir að það sé hægrislagsíða á RÚV sko, og þegar allir eru óánægðir er þá stofnunin ekki bara einmitt hlutlaus?
Sumir vilja fá bein dæmi. Til gamans má hér nefna tvö mál sem Vefþjóðviljinn hefur fjallað um áður. Sumarið 2009 voru heitar deilur í landinu um Icesave og inngöngubeiðni í Evrópusambandið. Í ágúst 2009 fékk Andríki Capacent-Gallup til að gera skoðanakannanir um þessi heitu mál. Vöktu niðurstöðurnar mikla athygli fjölmiðla, bæði hér á landi og víða erlendis. Á því var þó undantekning. Þann 6. ágúst 2009 skrifaði Vefþjóðviljinn:
Síðustu tvo daga birti Vefþjóðviljinn niðurstöður þriggja skoðanakannana sem Andríki fékk Capacent-Gallup til til að gera og fjölluðu um tvö heitustu deilumál landsins þetta árið, Evrópusambandsaðild og frumvarp ríkisstjórnarinnar um ábyrgð íslenska ríkisins á icesave-skuldum Landsbankans. Kannanirnar um Evrópusambandsaðild voru þær fyrstu og einu sem birst hafa um það málefni síðan Alþingi ákvað að Ísland skyldi óska eftir inngöngu í sambandið og könnunin um Icesave-frumvarpið er sú eina sem birst hefur um það málefni. Fór því ekki hjá því að niðurstöðurnar þættu fréttnæmar og áhugaverðar.
Reyndar hafa þær ekki aðeins vakið athygli innanlands. Erlendar fréttasíður um Evrópumál fjölluðu strax um Evrópusambandskannanirnar, sömuleiðis fréttaveitur um fjármálamarkaði um Icesave könnunina, erlendir stjórnmálamenn sýna þeim athygli og niðurstöðurnar voru ekki dagsgamlar þegar um þær mátti lesa á vefalfræðiritinu Wikipediu svo nokkuð sé nefnt. Meira að segja hið mjög svo Evrópusambands- og Icesave-sinnaða íslenska Morgunblað sagði frá niðurstöðunum, þó blaðið hafi vissulega ekki gert mikið úr þeim.
Þetta er allt nefnt til gamans vegna þess að Vefþjóðviljinn getur ekki stillt sig um að segja frá skemmtilegustu fjölmiðlaviðbrögðunum, sem reyndar voru þau sem komu honum síst á óvart. Einn fjölmiðill hefur bara alls ekki heyrt af þessum könnunum, þeim einu sem gerðar hafa verið í sumar á þessum heitu deilumálum. Þeir sem búa svo illa að fá allan sinn fróðleik um heiminn frá „fréttastofu Ríkisútvarpsins“ hafa ekki hugmynd um að þessar skoðanakannanir hafi verið gerðar. „Fréttastofa Ríkisútvarpsins“ hefur undanfarna tvo sólarhringa ekki nefnt þær einu aukateknu orði – og voru Icesave-mál þó mjög í fréttum í gær, þegar fréttastofan hamraði á því að nú væri alveg að takast að fylkja öllum stjórnarþingmönnum saman um flokkslínuna í málinu.
Alveg óháð því hvaða skoðun menn hafa á Evrópusambandinu og því hvort skattgreiðendur eigi að gangast í ábyrgð vegna Icesave-reikninganna: Dettur einhverjum í hug að eðlilegt fréttamat hafi ráðið því að afgerandi niðurstöður marktækra Gallup-kannana um þessi mál, við núverandi aðstæður, væru aldrei nefndar í fréttatímum? Aðeins 19,6% segjast vera hlynnt helsta máli ríkisstjórnarinnar en 67,9% andvíg því, og „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ segir ekki frá því, og er hún þó að tala um þetta sama þingmál fremst í öllum fréttatímum.
En raunar taldi „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ eina skoðanakönnun eiga erindi við landsmenn í gær. Í áríðandi frétt hennar í gær kom fram að samkvæmt könnun sem gerð hafði verið fyrir tímaritið Insight China njóti vændiskonur meira trausts en stjórnmálamenn og vísindamenn í Kína. Mests trausts njóti þó bændur. Meðal annarra frétta, sem „fréttastofunni“ þóttu fréttnæmari en gríðarleg andstaða við Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar, voru þau stórtíðindi að þolinmæði Súðavíkurhrepps gagnvart landeigendum á Garðsstöðum er nú „á þrotum“, aukaleikara vantar í kvikmynd sem nú er unnið að í Dölunum, tjaldsvæði vantar í Vesturbyggð, matjurtagarður var eyðilagður í Kópavogi og matvælastofnun hefur hrint af stokkunum verkefni sem kallast „útivist nautgripa“. Daginn áður náðu mótmæli Samtaka herstöðvaandstæðinga á Norðurlandi í aðalfréttatíma útvarpsins, en ekki ný Gallup-könnun um Evrópusambandsinngöngu.
Þetta verður enn skemmtilegra þegar haft er í huga að „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ hefur nú stundum verið þeirrar skoðunar að niðurstöður skoðanakannana um Evrópumál séu mjög fréttnæmar, jafnvel talið þær svo forvitnilegar að hún kostar sjálf gerð þeirra af naumu fé sínu. En þá hefur líka verið hægt að slá upp stríðsfyrirsögnum sem gagnast í baráttunni. Ekki eitthvert leiðindapíp um að menn vilji ekki ganga inn og styðji hreinlega ekki Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar.
„Fréttastofu Ríkisútvarpsins“ var bent á að fram væru komnar niðurstöður Gallup-kannana um þessi heitu deilumál. Þögnin var ekki af því að „fréttastofan“ vissi ekki af niðurstöðunum. „Fréttastofan“ tók einfaldlega ákvörðun um að áheyrendum og áhorfendum kæmu þær ekkert við. …
Fréttir „Fréttastofu Ríkisútvarpsins“ af hinum fróðlegu niðurstöðum Gallup-kannananna reyndust á endanum vera það langfróðlegasta við þær.
Man einhver eftir því þegar forystumenn vinstrigrænna í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar skrifuðu honum opið bréf og kölluðu hann meðal annars „ómerking“, einmitt á meðan heitast var deilt á Alþingi? Það er skiljanlegt ef menn hafa gleymt því, að minnsta kosti fannst Ríkisútvarpinu það ekki mjög fréttnæmt, sagði vart frá því og hefur ekki rifjað það upp síðan. Þann 15. júlí 2009 skrifaði Vefþjóðviljinn:
Í gær sagði Vefþjóðviljinn frá því hvernig „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins réði sér varla yfir þeim stórtíðindum að Evrópusambandssinninn kunni, Benedikt Jóhannesson, forsvarsmaður baráttuhópsins sammala.is, hefði daginn áður skrifað grein í Morgunblaðið og hvatt þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að styðja tillögu um inngöngubeiðni í Evrópusambandið. Vitaskuld var þó ekkert fréttnæmt við málið, en stuðningur þessa manns við málið var öllum kunnur, enda hafði hann marglýst honum áður og meira að segja birst í tæplega líkamsstærð í heilsíðuauglýsingum í öllum blöðum fyrir síðustu kosningar til þess að kynna hana. Engu að síður lét „fréttastofan“ eins og stórfrétt væri á ferð. Önnur frétt dagsins, kynnt af fréttaþul og svo löng romsa hjá fréttamanni, meira en ein mínúta og fjörutíu sekúndur, með löngum lestri úr grein Benedikts.
En í gær gerðust hins vegar raunveruleg stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum. Það opna bréf sem áður var minnst á, sem frambjóðendur og aðrir forystumenn vinstrigrænna í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar skrifuðu, þar sem honum er lýst sem ómerkingi ef hann geri alvöru úr því að greiða atkvæði með inngöngubeiðni í Evrópusambandið, er ekkert minna en stórtíðindi.
Það er algerlega fáheyrt að hópur frambjóðanda á framboðslista kalli oddvita sinn og flokksformann ómerking, í opnu bréfi sem birt er alþjóð, og það aðeins tveimur og hálfum mánuði eftir alþingiskosningar. Og þegar þetta gerist innan vinstrigrænna, í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar, í þeim flokki þar sem aldrei hefur orðinu verið hallað á formanninn utanhúss, mynd hans er prentuð á boli sem flokksmenn margir hverjir ganga í, og framan á kosningabæklingum er andlitsmynd hans svo stór að bókstaflega er hægt að telja skegghárin, þá minnka ekki stórtíðindin.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá málinu í gær, í sjöundu frétt. Fréttina las fréttalesarinn Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir eins hratt og hún gat með góðu móti og náði að ljúka því skylduverki á tuttugu og fjórum sekúndum.
Og beri menn það nú saman við fréttina af grein Benedikts Jóhannessonar.
* Einn maður, sem ekki gegnir trúnaðarstöðum, lýsir skoðun sem hann hefur marglýst undanfarna mánuði og þar að auki auglýst á eigin kostnað dögum saman fyrir síðustu kosningar: Önnur frétt, sérstakur fréttamaður, ein mínúta og fjörutíu og tvær sekúndur.
* Tólf forystumenn vinstrigrænna, þar af sex frambjóðendur flokksins í kjördæmi formannsins, kjörnir trúnaðarmenn flokksins og bæjarfulltrúi hans og oddviti í langstærsta sveitarfélagi í kjördæmi formannsins kalla Steingrím J. Sigfússon ómerking í opnu bréfi til þjóðarinnar: Sjöunda frétt, þulur les, afgreitt á tuttugu og fjórum sekúndum.
Þeir sem telja að Ríkisútvarpið reki í raun fréttastofu, eru beðnir um að rétta upp hönd. Það má vera sú vinstri.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins segist njóta mikils trausts almennra borgara. Fyrir ári sagði fjármálaeftirlitið það líka.
Í seinnifréttum Ríkissjónvarpsins er jafnan talið upp hvað „var helst í fréttum hjá okkur klukkan sjö“. Í yfirliti gærkvöldsins var flestallt nefnt; skuldir þjóðarbúsins, erlendir kröfuhafar gætu eignast Kaupþing, einkafyrirtæki gæti eignast þriðjungshlut í orkufyrirtækinu Þeistareykjum, strandveiðum er að ljúka á Norðvesturlandi, tveir dalmatíuhundar réðust á smáhund í Fossvogsdal „fyrir skömmu“ og unnið er að þróun nýrrar tækni við veðurrannsóknir hér á landi. EN – viti menn, ein frétt var ekki talin þess verð að vera talin með öllum þessum stórtíðindum, en hún var nú bara eitthvert hversdagslegt efni eins og að forystumenn og frambjóðendur vinstrigrænna í norðausturkjördæmi segi Steingrím J. Sigfússon ómerking. Það þykir nú ekki merkilegt á „fréttastofu Ríkisútvarpsins“ að minnsta kosti ekki í sömu viku og dalmatíuhundur ræðst á smáhund og strandveiðum lýkur senn.
Ríkisútvarpið rekur ekki fréttastofu. Það rekur ósvífna áróðursskrifstofu sem hamast og hamast, í trausti þess að enginn segi neitt og fréttastjóri, vaktstjórar og fréttamenn muni aldrei sæta neinni ábyrgð.
Þeir forystumenn vinstrigrænna sem skrifa undir bréfið, ávarpa í Steingrím J. Sigfússon í því og segjast meðal annars hafa „rætt við marga innan hreyfingarinnar og ekki enn fundið neinn sem er sammála þeirri leið sem þú og meirihluti þingmanna okkar ætlar að fara“. Ekki neinn. Nei, það er nú ekki eins fréttnæmt og margtuggin sjónarmið Benedikts Jóhannessonar framkvæmdastjóra.
Sjöunda frétt, tuttugu og fjórar sekúndur. Nær ekki í yfirlitið í seinnifréttum. Og stjórnarandstaðan flýtir sér að taka málið af dagskrá.