Í slenskir álitsgjafar og fjölmiðlamenn geta snúið næstum hverju sem er á haus. Enda er svo komið að allskyns ranghugmyndir og fjarstæður eru næstum því viðurkennd sannindi í opinberri umræðu.
Lítið dæmi um fjölmiðlamannafróðleik mátti finna í Fréttablaðinu í gær. Þar skrifar Kolbeinn Ó. Proppé langa fréttaskýringu um samstarf stjórnarflokkanna og segir þar meðal annars að viðbrögð stjórnarandstöðunnar við Icesave-kosningunni um helgina hafi „þjappað stjórnarliðum saman“ og hafi ríkt „góður andi“ á síðasta þingflokksfundi vinstrigrænna. Segir svo:
Þá segja menn, bæði í gamni og alvöru, að sýning Draumalands þeirra Þorfinns Guðnasonar og Andra Snæs Magnasonar, hafi glætt glóðir ríkisstjórnarsamstarfsins. Þingmenn hafi sammælst um að hleypa ekki þeim flokkum að sem stóðu að þeim framkvæmdum sem myndin lýsir. |
Þetta er merkilegur fróðleikur og það frá blaðamanni sem er enginn nýgræðingur í stjórnmálum, en blaðamaðurinn sat sjálfur í efsta sæti vinstrigrænna í suðurkjördæmi í alþingiskosningunum árið 2003. Jafnvel slíkur maður virðist ekki muna hvernig Kárahnjúkavirkjun var afgreidd á Alþingi. Það voru beinlínis sett sérstök vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar og fengu þau númerið 38/2002. Í fyrstu grein þeirra segir:
Landsvirkjun er heimilt að reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Fljótsdal með allt að 750 MW afli ásamt aðalorkuveitum og virkja til þess vatnsföllin Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal í tveimur áföngum (Kárahnjúkavirkjun).
Í fyrri áfanga er Landsvirkjun heimilt að reisa þrjár stíflur við Fremri-Kárahnjúka (Kárahnjúkastíflu, Desjarárstíflu og Sauðárdalsstíflu), veita Jökulsá á Brú frá miðlunarlóni (Hálslóni) um aðrennslisgöng undir Fljótsdalsheiði að stöðvarhúsi, reisa stöðvarhús neðan jarðar í Fljótsdal með frárennsli eftir göngum og skurði út í farveg Jökulsár í Fjótsdal, í samræmi við uppdrátt í viðauka, svo og að reisa önnur mannvirki vegna virkjunarinnar. Í síðari áfanga er Landsvirkjun heimilt að reisa stíflu í farvegi Jökulsár í Fljótsdal (Ufsarstíflu), veita ánni ásamt vatni af Hraunum inn í aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar á Fljótsdalsheiði í samræmi við uppdrátt í viðauka og reisa önnur mannvirki vegna virkjunarinnar. |
Lögin voru samþykkt á Alþingi þann 8. apríl 2002 með 44 atkvæðum gegn 9. Meðal þeirra sem greiddu atkvæði með lögunum voru allir núverandi ráðherrar Samfylkingarinnar sem þá sátu á þingi, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Kristján Möller. Þeir stjórnarliðar sem vilja ekki hafa við völd þá sem veittu atbeina sinn til framkvæmdanna sem lýst er í Draumalandinu, munu því hafa nóg að gera við vantrausttillögur næstu daga.
En kannski er mönnum vorkunn að setja fram eða trúa sagnfræði eins og þessari. Á höfuðborgarsvæðinu reyndi Samfylkingin sem mest hún mátti að fela afstöðu sína til málsins. Austur á landi var hins vegar annað uppi á teningnum. Á öllum fundum þar sem ljósvakamiðlar voru ekki viðstaddir töluðu Samfylkingarmenn hástöfum fyrir framkvæmdum og frambjóðendur hennar sátu fyrir á myndum við Alcoa-skiltin. Þær myndir voru hins vegar bara sýndar austur á landi.