Miðvikudagur 9. desember 2015

Vefþjóðviljinn 343. tbl. 19. árg.

Slagsíðan á Ríkisútvarpinu kemur stundum til tals hér. Því er þó sjaldan haldið fram að í gangi sé víðtækt samsæri starfsmanna í Efstaleiti um að halla réttu máli. Efnistök ráðist hins vegar mikið af lífssýn og gildismati almennra starfsmanna, með þeim afleiðingum að mikil slagsíða verði á dagskránni. Slagsíða til vinstri, til stjórnlyndis, til reglna, til rétttrúnaðar, og svo framvegis.

Ofurlítið dæmi síðan í gær, afar smátt, segir svolitla sögu.

Þá var á Rás 1 fluttur þátturinn „Samfélagið“. Í upphafi þáttarins var efni hans kynnt. Þar átti meðal annars að fjalla um ógnir sem stöfuðu af loftslagsbreytningum, en svo sagði umsjónarmaður þáttarins: „og við skoðum líka pólitíska landslagið í Frakklandi en þar í landi fékk Þjóðfylkingin, lýðskrumsflokkur lengst til hægri, flest atkvæði í kosningum til héraðsstjórna á sunnudag.“

Nú má mönnum alveg finnst Þjóðfylkingin í Frakklandi vera lýðskrumsflokkur og það verðskuldað. Rétt eins og mönnum má finnast hvað sem er um einstaka stjórnmálaflokka. En eiga starfsmenn Ríkisútvarpsins, sem ætla að uppfræða hlustendur um kosningar í erlendu ríki, að kalla einhvern flokkanna þar „lýðskrumsflokk“?

Hvað hefði verið sagt ef þáttastjórnandinn hefði í kynningu sagt að hin framfarasinnaða Þjóðfylking hefði skotið gömlum og kreddufullum valdaflokkum ref fyrir rass?

Ætli þá hefði ekki verið sagt að þáttastjórnandinn ætti að halda eigin gildisdómum fyrir sig?