Vefþjóðviljinn 77. tbl. 20. árg.
Í síðustu þingkosningum missti Samfylkingin mikið fylgi. Nýjusta skoðanakönnunin segir að fylgi flokksins sé innan við 8%, rétt eins og hjá Vinstrigrænum, svo hugtakið „turnarnir tveir“ á vinstri vængnum er nú orðið „lóðirnar tvær“.
Þeir Samfylkingarmenn sem eftir eru, skiptast nú í fjóra hópa.
Í fyrsta hópnum eru þeir sem eru að hugleiða framboð til embættis forseta Íslands.
Í öðrum hópnum eru þeir sem eru búnir að ákveða framboð til embættis forseta Íslands.
Í þriðja hópnum eru þeir sem eru að hugleiða framboð til embættis formanns Samfylkingarinnar.
Í fjórða og síðasta hópnum eru svo þeir sem búnir eru að ákveða framboð til embættis formanns Samfylkingarinnar.
Ekki er þó rétt að draga of miklar ályktanir af fjölda hópanna, því þeir geta skarast talsvert.
Í öðrum pólitískum fréttum er það að vel tókst til þegar ráðinn var bæjarstjóri í Borgarnesi. Gunnlaugur Júlíusson sem ráðinn var, hefur oft lagt gott til mála. Svo er hagstætt fyrir bæinn að þurfa ekki að borga bæjarstjóranum aksturspeninga þótt hann þurfi oft að fara til Reykjavíkur á fund. Gunnlaugur hleypur á alla fundi.