Vefþjóðviljinn 260. tbl. 19. árg.
Nú þegar nýtt þing er hafið hlýtur þingaályktunartillagan um „niðurfellingu gjalda á vistvænt eldsneyti sem er framleitt innan lands“ að fara að koma fram í fimmta sinn frá vinstri flokkunum. Það er þegar búið að leggja hana fram fjórum sinnum á undanförnum þremur árum.
Katrín Júlíusdóttir, Árni Páll Árnason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Össur Skarphéðinsson og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar lögðu tillöguna fram á síðasta þingi og einnig því þarsíðasta.
Á síðasta kjörtímabili var þessi tillaga lögð fram af Magnúsi Orra Schram, Skúla Helgasyni, Birgittu Jónsdóttur, Þór Saari og fleirum í mars 2012 og aftur ári síðar.
Enginn þeirra 17 þingmanna sem hafa lagt nafn við tillöguna virðist hafa skilið hvað hann var að leggja fram. Svonefnt „vistvænt“ eða „endurnýjanlegt“ eldsneyti ber engin eldsneytisgjöld; ekki kolefnisgjald, ekki vörugöld sem lögð eru á bensín, ekki sérstakt vörugjald sem lagt er á bensín og ekki heldur olíugjald.
Þessi gjöld voru felld niður af „vistvæna“ eldsneytinu árið 2011, rúmu ári áður en þingsályktunartillagan um að fella þau niður kom fyrst fram.
Hvernig stendur á því að þessi stóri hópur þingmanna hafði engan skilning á því sem hann var að leggja fram? Hvað á það að þýða að leggja fram þingsályktunartillögu um atriði sem þegar er í lögum?
Því miður er dæmi um að tillögur sem lúta að einmitt þessum málum hafi verið skrifaðar af hagsmunaaðilum úti í bæ og lagðar fyrir þingið sem stjórnarfrumvarp og orðið að lögum. Þar skorti augljóslega mikið upp á að ráðherrann skildi hvað hann væri að leggja fram og að þingmenn áttuðu sig á því hvað þeir væru að samþykkja.
Það ógæfumál hefur leitt til algerlegra óþarfra milljarðaútgjalda fyrir Íslendinga við innkaup á lífeldsneyti.