Vefþjóðviljinn 286. tbl. 18. árg.
Eins gott og það er að jafna nokkuð virðisaukaskatt á nautalundum (nú 7%) og skóm (25,5%) þá myndi það hjálpa ef efra þrepið væri lækkað þannig að menn teldu það raunverulega lækkun.
Öllum þykir hækkun á humri, nautalundum og öðrum matvælum úr 7 í 12% eðlilega vera umtalsverð. En lækkun á sokkum og skóm úr 25,5 í 24,5% þykir varla tilkomumikil.
Umræðan um þessa tillögu ríkisstjórnarinnar tapaðist á fyrstu dögunum, ef ekki stundunum, eftir að hún kom fram. Viðbrögðin þurftu ekki að koma á óvart því áður hefur verið reynt að einfalda virðisaukaskattskerfið með svipuðum viðbrögðum vegna matvæla.
Ekki hefur heldur tekist að kynna fyrir mönnum hvílíkur ávinningur er af niðurfellingu vörugjalda á óteljandi nauðsynjar til heimilishalds og reksturs fyrirtækja. Eða kannski var það ekki reynt.
Á meðan þessu stendur gleymist svo alveg að ræða hina raunverulegu matarskatta; tollana, innflutningshöftin, mjólkurmiðstýringuna og beinu ríkisstyrkina til landbúnaðar sem koma beint úr vösum skattgreiðenda.