Laugardagur 3. maí 2014

Vefþjóðviljinn 123. tbl. 18. árg.

Húsvíkingar hafa allar klær úti til að hafa tekjur af erlendum ferðamönnum sem vilja skoða náttúruna. En nú vill bæjarstjórn þeirra banna það sem hún kallar óskipulagða gjaldtöku af erlendum ferðamönnum.
Húsvíkingar hafa allar klær úti til að hafa tekjur af erlendum ferðamönnum sem vilja skoða náttúruna. En nú vill bæjarstjórn þeirra banna það sem hún kallar óskipulagða gjaldtöku af erlendum ferðamönnum.

Bæjarstjórn Norðurþings, það er Húsavíkur og næstu sveita, hefur ályktað eftirfarandi:

Óskipulögð gjaldtaka eins og nú er boðuð skaðar orðspor Íslands erlendis og er nú úr takti við þá ímynd sem ferðaþjónustuaðilar hafa lagt mikla vinnu í að kynna.

Bæjarstjórnin lýsir sérstökum áhyggjum af gjaldtöku landeigenda við Dettifoss og Námaskarð og virðist það raunar vera tilefni ályktunarinnar gegn „óskipulagðri gjaldtöku“ af ferðamönnum.

Það hlýtur að fara um hvalaskoðunarfyrirtækin sem gera út frá Húsavík við þessar fréttir. Ekki verður betur séð en þau stundi algerlega „óskipulagða gjaldtöku“ af ferðamönnum sem vilja skoða náttúruna úti fyrir Húsavík.

Ætlar bæjarstjórn Húsavíkur að sauma að hvalaskoðunarfyrirtækjunum sem gera út frá bænum og taka gjald af ferðamönnum? Eru þau að „skaða orðspor Ísland erlendis“ og „úr takti við við þá ímynd sem ferðaþjónustuaðilar hafa lagt mikla vinnu í að kynna“?

Ef bæjarstjórninni er alvara með því að „óskipulögð gjaldtaka“ sé landi og þjóð til skammar hlýtur hún að afturkalla starfsleyfi þeirra fyrirtækja sem stunda hana við húsgaflinn á bæjarskrifstofunum og nota höfn bæjarins til þess arna.