Þriðjudagur 8. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 98. tbl. 18. árg.

Þeir sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið beita nú ýmsum brögðum til að reyna að tryggja að Ísland verði áfram umsóknarríki, þrátt fyrir að meirihluti Alþingis vilji ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ólíklegustu frasar eru notaðir í áróðrinum, margir endurteknir hvað eftir annað.

Einn er sá að þjóðaratkvæðagreiðslur séu kjörin leið til að „höggva á hnútinn“. Nú megi kjörnir fulltrúar ekki ákveða hvert stefnt skuli, heldur sé þjóðaratkvæðagreiðsla auðvitað rétta aðferðin.

Það er hlálegt að heyra stuðningsmenn Evrópusambandsins tala um þjóðaratkvæðagreiðslur. Enginn gerir minna en Evrópusambandið með þjóðaratkvæðagreiðslur. Þá sjaldan þjóðir aðildarríkjanna fá að kjósa um nýja sáttmála, eru þær látnar kjósa aftur ef þær kjósa ekki „rétt“ í fyrsta skipti. Þegar aðildarríki byrjuðu að fella nýju stjórnarskrá Evrópusambandsins var brugðist við því að með því að hætta að kalla hana stjórnarskrá og nefna hana í staðinn sáttmála, Lissabon-sáttmálann. Eftir það var hægt að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu í þeim löndum þar sem hætta var talin á að þjóðin þyrði að sýna aðra skoðun en þeim í Brussel þóknaðist.

En þegar Evrópusinnarnir og stækkunarstjórarnir ná loks að vinna þjóðaratkvæðagreiðslur, þegar nægilega margir hafa gefist upp á að kjósa gegn þeim, þá er aldrei kosið meir. „Nei“ kallar alltaf á nýja kosningu. „Já“ og þá er aldrei kosið aftur.

Á Íslandi neituðu Evrópusinnar algerlega að haldið yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Ísland yrði umsóknarríki í Evrópusambandið. Núna krefjast sömu Evrópusinnar þess að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Ísland haldi áfram að vera umsóknarríki. Og þeir halda að þeir geti hrætt einhverja þingmenn til að láta undan.