Þriðjudagur 16. ágúst 2011

228. tbl. 15. árg.

Í dag bárust en á ný tíðindi af leiðtogum Evrópusambandsins, sem boða að fjárlög einstakra aðildarríkja verði að hljóta blessun í Brussel. Þetta hljómar kannski eins og eitthvað formsatriði en fjárlög snúast annars vegar um öll útgjöld ríkis og hins vegar þá skatta sem ríki leggja á borgarana. Nú hrópa kannski einhverjir miðstýring, miðstýring, eins og gerist stundum þegar Evrópusambandið er nefnt. En þeir geta þá huggað sig við að Evrópusambandið hefur lengi sett aðildarríkjum ýmsar reglur um fjárlög, líkt og að halli megi ekki fara umfram ákveðið hlutfall landsframleiðslu. Það hvarflar bara ekki að stjórnmálamönnum sem æskja endurkjörs innan fjögurra ára að skera útgjöld niður við trog. Þeir fara bara í kringum reglurnar.

Þessu til viðbótar boða leiðtogarnir að skattar verði lagðir á flutning fjármagns á milli landa. Hvað ætli slíkur skattur þurfi að vera hár til að hægt sé að kalla hann gjaldeyrishöft?

Leiðtogar ESB voru ekki þeir einu sem kynntu stórbrotnar hugmyndir sínar í dag. Anders Borg fjármálaráðherra Svíþjóðar tilkynnti að unnið sé að áætlun til þess að vernda fjármála- og bankageira landsins frá því að sökkva í skuldakreppuna sem ríki í Evrópu. Í frétt Morgunblaðsins í dag segir:

Meðal annars verði aukið fé sett í eftirlit með fjármálamörkuðum og tryggingasjóður innistæðueigenda verði efldur. Jafnframt verða hertar reglur um lausafé banka, að sögn Borg í viðtali við Dagens Nyheter í dag.

Hvers vegna ætla Svíar að færa fjármála- og bankageira landsins undir hið fræga velferðarkerfi sitt? Hvers vegna mega sænskir bankar ekki verða afvelta eins og hvert annað fyrirtæki? Og hvað þýðir það annað þegar rætt er um að efla tryggingasjóð innstæðueigenda en að veita þeim sem stundum eru nefndir fjármagnseigendur einhvers konar ríkisábyrgð eða „ókeypis“ tryggingar?

Þrátt fyrir alla ríkisaðstoðina sem fjármálafyrirtæki hafa fengið á undanförnum árum halda stjórnmálamenn áfram að koma með hugmyndir um að bæta í.