Mánudagur 9. nóvember 2009

313. tbl. 13. árg.

Í dag eru tuttugu ár síðan Berlínarmúrinn féll og íbúar Austur-Þýskalands gátu gengið yfir í frelsið í vestri. Í áratugi hafði „múrinn“ verið tákn ófrelsis og kúgunar, tákn harðstjórnar sem vildi skipuleggja líf þegnanna eins og mögulegt væri, leit á hinn almenna mann sem tannhjól í vél en ekki frjálsan mann. Hagsmunir „þjóðfélagsins“ og hópsins skyldu ráða en ekki frelsi einstaklingsins.

Sú stefna leiðir til kúgunar, þar sem hún fær að viðgangast. Þetta skildu margir á sínum tíma og eftirminnilegar voru myndirnar af brotnum múrnum og fólki sem loks fékk möguleika á því að komast yfir landamærin öðruvísi en undir skothríð landa sinna í varðturnunum.

En hvað man fólk af ógnum kommúnismans og hvað veit yngra fólk um þá skelfingu sem kommúnisminn hefur leitt yfir saklaust fólk og gerir enn?
Jafnvel á hinu fróða Íslandi, mátti þar ekki sjá hamar og sigð á mótmælaspjöldum og bloggsíðum, þegar lélegri en löglegri ríkisstjórn var í raun velt frá völdum síðastliðinn vetur? Stóðu ekki hver ráðherrar með krepptan hnefa syngjandi internationalinn við setningu ársfundar ASÍ á dögunum? – Já og ef einhver vill í þeirra þágu spinna að lagið sé eldra en not kommúnistanna á því, þá má geta þess að hakakrossinn var ekki uppfinning nasista heldur fornt germanskt tákn, en þó myndu ýmsir heldur veigra sér við mikilli notkun þess nú á dögum, og myndu að minnsta kosti reyna að gæta þess að halda hægri handleggnum niður á við, svona rétt á meðan.

Já hvað hefur fólk lært af sögunni? Vinstri hreyfingin grænt framboð lét framleiða nærboli með mynd af Steingrími J. Sigfússyni í gervi Che Guevara og á vef flokksins var sama myndskreyting á hnappi fyrir þá sem vildu styrkja flokkinn. Formaður Blaðamannafélags Íslands, núverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, var spurður í blaðaviðtali fyrir rúmum áratug hvaða stjórnmálamanni hann hefði mest álit á. Hann nefndi Lenín. Formaður utanríkismálanefndar alþingis birtir sjálfur af sér myndir í fatnaði með andlitsmynd Che Guevara. Og enginn segir neitt nema kannski eitthvert vefrit sem sumum þykir líklega smámunasamt og leiðinlegt að nefna svona hluti. En hvernig ætli menn tækju því ef bæjarstjórinn í Keflavík hefði sagt Adolf Hitler sinn eftirlætismann og við hliðina á honum hefði verið mynd af Birni Bjarnasyni, með húfu með mynd af Göring?

Það er algerlega sjálfsagt að ætlast til þess að fólk þekki nokkuð til skelfingar kommúnismans. Í bóksölu Andríkis eru tvær gríðarlega fróðlegar bækur um það ótrúlega efni, sem allir, ekki síst ungt fólk, ættu að kynna sér . Kommúnisminn er ákaflega aðgengilegt yfirlitsrit um málið, en Svartbók kommúnismans rekur hryllinginn mun ýtarlegar. Kommúnisminn er 180 blaðsíður, svo hana kaupa menn fyrir sjálfa sig. Svartbók kommúnismans er 828 blaðsíður svo hana gefa menn vinum sínum og spyrja þá reglulega hvernig gangi.