Þriðjudagur 8. desember 2009

342. tbl. 13. árg.
Ef þingmaður forfallast svo að nauðsyn krefji að varamaður hans taki sæti hans á meðan skal hann tilkynna forseta það bréflega og jafnframt gera grein fyrir í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau muni vara. Forseti kynnir þinginu bréfið. Þegar varamaður tekur sæti í forföllum þingmanns skal hann ekki sitja skemur en tvær vikur nema þingið hafi áður verið rofið eða því frestað. Þingmaður nýtur ekki þingfararkaups meðan varamaður hans situr á þingi nema fjarvist sé vegna veikinda eða þingmaður sé fjarverandi í opinberum erindum.
– 2. mgr. 53. laga um þingsköp alþingis.

Í

gær birti Andríki fjórar dagblaðaauglýsingar, þar sem vitnað var orðrétt í þingræður Atla Gíslasonar, þingmanns vinstrigrænna, um Icesave-málið. Þó margir þingmenn hafi sagt margt rétt og ágætt um það mál, þá eru fáir sem hafa farið nær skoðunum Vefþjóðviljans á málinu. Þingræður Atla, sem þarna var vitnað í, standa sem ágætur vitnisburður um alþingismann sem áttaði sig á aðalatriðum afdrifaríks máls og var ekki hræddur við að láta þær í ljós.

Orð Atla úr ræðustóli alþingis má sjá dæmi um á myndunum hér til hliðar og getur Vefþjóðviljinn að sjálfsögðu tekið undir með þingmanninum. Síðan Atli mælti þessi ágætu og réttu orð hefur ekkert gerst sem leggur skyldu á herðar Íslandi að ábyrgjast Icesave-skuldirnar, þó nú sé reynt að fá alþingi til að breyta því og ganga að öllum kröfum Breta og Hollendinga. Þingmenn gætu hiklaust notað öll þessi orð Atla þegar þeir gera grein fyrir því atkvæði sínu að hafna fyrirliggjandi frumvarpi um að íslenska ríkið gangist í ábyrgð fyrir Icesave-skuldirnar.

Eitt hefur hins vegar breyst frá því Atli Gíslason talaði af einurð og skynsemi í þingsalnum: Vinstrigrænir eru komnir í ríkisstjórn. Ekkert hefur hins vegar breyst sem leggi neina skyldu á Ísland.

En er þá ekki ljóst að Atli Gíslason, hinn hugdjarfi og réttsýni þingmaður, mun við atkvæðagreiðslu standa með sannfæringu sinni, Íslandi og öðrum réttsýnum þingmönnum og segja nei?

Njaa…. nei í gær tilkynnti Atli Gíslason að hann þyrfti að taka sér hlé frá þingstörfum af „persónulegum ástæðum“. Þegar grennslast er fyrir um það þá kemur í ljós að Atli stendur í flutningum og svo þarf hann að vinna í bókhaldinu á lögfræðiskrifstofu sinni. Hann verður þess vegna, því miður, að taka sér frí frá þingstörfum og kalla inn varamann sinn, Arndísi Sigurðardóttur að nafni, tímabundið.

Þannig að Atli Gíslason ætlar að hafa þetta svona: Hann fer vandlega yfir það í þingræðum af hverju það ber að hafna Icesave-ánauðinni. Svo fer hann í frí og situr heima fram yfir áramót að fægja hreina skjöldinn sinn. Arndís Sigurðardóttir fær hins vegar að skjótast inn á þing og það skal verða nafn hennar, en ekki Atla, sem fylgir Icesave-ánauðinni, sem getur numið allt að þúsund milljörðum króna í erlendum gjaldeyrir á bornar sem óbornar kynslóðir Íslendinga.

Svo mikið er Atla í mun um þetta, að hann tekur sér launalaust leyfi, því þingmenn fá ekki laun í óvæntu leyfi vegna „flutninga“. Gert er ráð fyrir að þingmenn séu á þingi, nema veikindi eða opinber erindi kalli á fjarveru þeirra.

En Atli er mikill femínisti. Kannski vill hann fá Arndísi á þing til að fjölga konum á minnisvarðanum.

A llur kostnaður við útgáfu Vefþjóðviljans og aðra starfsemi Andríkis, svo sem auglýsingar gærdagsins, er greiddur með frjálsum framlögum lesenda blaðsins, sem margir hafa þannig styrkt útgáfuna í meira en áratug. Þessum vinsamlegu lesendum er þakkað sérstaklega um leið og aðrir sem vilja eru boðnir velkomnir í hópinn.