Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á mánudaginn var rætt við danska konu sem starfað hefur sem vændiskona undanfarin þrjú ár. Áður starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur. Ástæða viðtalsins var að konan hefur ásamt fleiri starfsystrum sínum hrundið af stað átaki til að kynna sjónarmið þeirra sem kjósa að hafa vændi að starfi. Þær eru búnar að fá nóg af því að aðrir tali fyrir þeirra hönd.
Oftast þegar þessi mál eru rædd í fjölmiðlum eru viðmælendur fjölmiðlanna eitthvað allt annað fólk en það sem starfar við vændið. Hið sama á við um önnur svið kynlífstengdrar starfsemi, þegar þau er rædd opinberlega skulu það jafnan vera reiðar konur úr vinstri pólitíkinni sem þyrpast að hljóðnemanum.
Helsta áhyggjuefni þessara reiðu vinstri kvenna er að ekki sé borin nægileg virðing fyrir konum. Þess vegna þurfa þær alltaf að grípa frammí þegar málefni vændiskvenna koma til umræðu og tala fyrir þeirra hönd. Þess vegna nota heldur engir jafn niðrandi orð um starf vændiskvenna. Þetta er eini hópurinn sem heldur því fram að þegar kona hefur stundað vændi – eða bara sést nakin á mynd – sé hún ekki lengur manneskja heldur hlutur. „Við verðum að koma í veg fyrir að líkami kvenna sé hlutgerður.“ Þetta er eini hópurinn sem miskunnarlaust hrærir vændi og klámi saman við þrælahald og ofbeldi gagnvart börnum. Er það liður í því að auka virðingu manna fyrir þeim konum sem stunda vændi að setja starf þeirra undir sama hatt og nauðung og ofbeldi af verstu sort?
Það neitar því enginn að í kynlífsiðnaðinum þrífst ýmislegt misjafnt. Það mun ekki síst eiga við þegar starfsemin er hrakin undir yfirborðið með lögum eða atlögum eins og reiðu vinstri konurnar gera reglulega að heiðri starfsfólks í þessum iðnaði. En eins og hinn danski viðmælandi Kastljóssins benti á þá má segja hið sama um byggingariðnað og landbúnað. Þar er ekki allt jafn fallegt. Þar eru oft ömurlegar aðstæður verkafólks sem flutt er ráðvillt milli landa. Dettur nokkrum í hug að leiðin til að bæta úr þessu sé að refsa neytendum landbúnaðarafurða, spurði danska vændiskonan að vonum.