Norræna tölvuleikjaáætlunin, sem menningarmálaráðherrarnir höfðu frumkvæði að, hefur gefið góða raun… |
– Úr frétt Morgunblaðsins um vilja menningarmálaráðherra Norðurlandanna til að auka norræna menningasamvinnu. |
Þ að þykir sjálfsagt einhverjum hálf hlægilegt að til sé opinber norræn tölvuleikjaáætlun. Öðrum hryllir vafalaust við þær fregnir að norrænir ráðherrar séu með samræmdar aðgerðir í gangi vegna tölvuleikja. Geta þær snúist um nokkuð annað en að banna Grand Theft Auto og takmarka iðkun Tetris undir merkjum lýðheilsu, manneldis og annars skandífasisma?
Svo eru þeir sem velta því fyrir sér hvernig dagblað getur sagt frá því bara sísona að norræna tölvuleikjaáætlunin hafi gefið góða raun. Og spurt einskis frekar. Blaðið hefur jafnvel ekki rænu á að spyrja hver hin góða raun sé nú. Hafa unglingar á Álandseyjum getið sér gott orð í Quake eftir að ætluninni var hrundið af stað?
En hvaða geðhrifum sem þessar fregnir valda er það staðreynd að í öllum stjórnarráðum Norðurlandanna eru starfsmenn á launum hjá skattgreiðendum við að sinna norrænu tölvuleikjaáætluninni. Ríkisreksturinn kemst víst alltaf upp á næsta borð.