Ríkisútvarpið sagði á dögunum frá hugmyndum Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um breytingar á kjörum fóstra og annarra starfsmanna leikskólanna og leitaði álits eins verkalýðsleiðtoga á þeim. Fyrir valinu varð Sigurður Bessason og réttilega kynntur sem formaður stéttarfélagsins Eflingar. Sigurði leist vel á hugmyndir Steinunnar. Ekkert var í sjálfu sér að þessari frétt, nema það litla atriði að hlustendur voru ekki fræddir á því að Sigurður Bessason, sem kvaddur var álits á hugmyndum oddvita R-listans, er ekki aðeins formaður Eflingar, heldur var hann sjálfur einn af frambjóðendum R-listans við síðustu kosningar. Hvers vegna fylgdi það ekki sögunni? Hvers vegna var hann aðeins kynntur sem formaður Eflingar? Hefði kannski enginn tekið mark á fréttinni ef það hefði verið „frambjóðandi R-listans“ sem tók svona vel í tillögur borgarstjóra R-listans?
Því er oft haldið fram að fjölmiðlar geti ekki verið hlutdrægir til lengdar því að lesendur, hlustendur eða áhorfendur, sjái strax í gegnum hlutdrægnina og snúi baki við fjölmiðlinum. Það á auðvitað við um fjölmiðla sem búa við aðhald hlustenda, lesenda, áskrifenda og auglýsenda. Ríkisútvarpið er hins vegar að mestu ónæmt fyrir þessu aðhaldi vegna skylduáskriftar. En hversu oft ætli þessi smávægilegu dæmi fari einfaldlega fram hjá útvarpshlustendum og blaðalesendum? Áhorfendur hafa auðvitað ekki tíma til að velta fyrir sér öllum mögulegum tengslum eins og þessum. Áhorfendur verða einfaldlega að treysta því að annað hvort skýri fjölmiðilinn frá því ef viðmælandi er tengdur málefninu eða þeim sem koma við sögu, eða þá að aðrir fjölmiðlar bendi á tengslin. Auðvitað þarf ekki að taka þetta fram ef tengslin eru augljós, en ef ætla má að þau fari fram hjá stórum hópi þá er sjálfsagt að vekja athygli á þeim.
Dæmin um þessi smátengsl eru mýmörg. Á dögunum benti Ólafur Teitur Guðnason til dæmis á það í einum fjölmiðlapistla sinna í Viðskiptablaðinu, að svo skemmtilega vildi til, þegar Ríkissjónvarpið sýndi viðtal við formann Ungra jafnaðarmanna að fréttamaðurinn sem tók viðtalið, hann hafði skömmu áður setið í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna, með formanninum sem hann var að spyrja. Ekki var orð um þetta í fréttinni. Ætli þessi tengsl hafi nú ekki farið fram hjá mörgum áhorfendum? Og enginn þarf að ímynda sér að það sé einungis á stjórnmálasviðinu sem menn tengjast umræðuefnunum. Ætli það séu miklar líkur á því að til dæmis menningarumfjöllun, íþróttaumfjöllun eða hvað menn vilja nefna, sé laus við svona lagað?
Og þegar fjölmiðlarnir sjálfir vekja ekki athygli á því þegar fréttamenn þeirra fjalla um mál sem þeim eru hugleikin, eða viðmælendur þeirra tengjast efninu með nánari hætti en blasir við áhorfendum, þá verður afar mikilvægt að aðrir fjölmiðlar sýni þeim aðhald með því að taka af þeim ómakið. Ríkisútvarpið er ekki aðeins nær ónæmt fyrir slíku aðhaldi heldur má gera ráð fyrir að starfsmenn þess veigri sér einnig við að gagnrýna aðra fjölmiðla vegna hinnar óeðlilegu stöðu sem Ríkisútvarpið hefur með ríkisstyrkjum. Þessi lamandi áhrif Ríkisútvarpsins hafa því áhrif á alla fjölmiðla og draga almennt úr gagnrýni þeirra hver á annan. Þess vegna eru fjölmiðlapistlar Ólafs Teits Guðnasonar í föstudagsblaði Viðskiptablaðsins svo kærkomnir.