Sandgerðisbær hefur að undanförnu auglýst að hann sé „innan seilingar“. Þar er að öllum líkindum átt við að bærinn sé skammt frá höfuðborginni. Eitt helsta atriðið sem bærinn leggur áherslu á með þessum auglýsingum er að þar á bæ sé „mikið lóðaframboð“. Fleira er raunar tínt til bænum til aðgreiningar frá öðrum sveitarfélögum og allt minnir þetta á hve mikilvægt það er fyrir borgarana að geta valið á milli sveitarfélaga með mismunandi þjónustu og skattheimtu.
Pólítískar ákvarðanir hafa oftast ófyrirsérðar afleiðingar. Oft eru þær þveröfugar við það sem ætlunin var. Þeir sem vilja „þéttingu byggðar“ með öllum ráðum hafa rekið sig á að afleiðingar þess að stöðva byggingu nýrra úthverfa við borgir, í þeim tilgangi að þétta byggð og stytta vegalengdir manna úr vinnu og til heimilis, geta snúist upp í andhverfu sína. Þeir sem vilja búa í úthverfum eru að sækjast eftir einbýlishúsum með bílskúrum, garðhýsum og stórum görðum þar sem allir í fjölskyldunni hafa nægt rými til að huga að sínum málum. Þetta eiga margir kaffihúsaspekingar í miðborginni erfitt með að skilja því það eina sem þeir þurfa er lítil kjöltutölva til að skrifa geðvonskupistla sína gegn „botnlangabúum“ í úthverfunum.
Þegar eftirspurn eftir húsnæði í úthverfum er á annað borð til staðar geta hömlur á byggingu þeirra í borgunum sjálfum haft haft þær afleiðingar að úthverfin rísa bara enn fjær miðborgarkjörnum, akstursvegalengdir lengjast enn meir og afleiðingin er þveröfug við það sem menn ætluðu. Það má til dæmis velta því fyrir sér hvort lóðaskortsststefna R-listans í Reykjavík, sem öðrum þræði er byggð á hugmyndafræðinni um þéttingu byggðar, hafi hrakið fólk úr borginni til næstu byggðarlaga utan höfuðborgarsvæðsins. Það er óumdeilt að fólk hefur að minnsta kosti farið í nágrannasveitarfélögin Kópavog, Garðabæ, Mosfellsbæ og Hafnarfjörð en hvað með Akranes, Kjalarnes, Hveragerði, Selfoss, Voga, Grindavík, Sandgerði og Keflavík? Vefþjóðviljinn hefur engar tölur eða rannsóknir til að styðja þessar hugleiðingar sínar um að lóðaskortsstefna R-listans hafi leitt til þess að fjöldi manna búi nú á Selfossi sem hefði viljað búa á Geldingarnesi, eða í Vogum en ekki við Úlfarsfell. En þetta er umhugsunarefni ekki síst þegar það er haft í huga að R-listanum hefur á tólf ára valdatíma sínum mistekist að þétta byggðina í borginni sjálfri. Það eina sem R-listinn hefur þétt á valdatíma sínum er bílaflotinn á götum borgarinnar.
Það ætti einnig að skipta máli í borgarstjórnarkosningum að ári ef R-listanum hefur bæði mistekist að þétta byggðina í borginni eins og hann stefndi að frá upphafi og komið því til leiðar með því að skammta lóðir naumt að menn þurfa nú að leita langt út fyrir borgina eftir húsnæði og þar með að aka 50 til 100 kílómetra á dag til vinnu.