Þ
Ef tillaga Samfylkingar um að binda „sjálfstæði ritstjórnar“ í lög hefði verið í lögum frá upphafi hefði margt orðið öðruvísi í ýmsum blöðum enda væri tjáningarfrelsi eigenda blaða þar með skert. |
að er margt sagt um „fjölmiðlafrumvarpið“. Sumt af því sem menn segja, er eflaust rétt og eflaust er ekki minna rangt, eins og gengur. Einnig er eflaust ýmislegt um það að menn haldi fram röksemdum sem þeir meina ekkert með sjálfir og þarf það ekkert að segja um það hversu mikið vit er í röksemdunum. Þannig má efast um að Samfylkingarmenn meini svo mikið með því, þegar þeir segjast telja að bann við því að markaðsráðandi fyrirtæki eigi meira en 5 % í ljósvakamiðli sé skerðing á tjáningarfrelsi eigenda þessa markaðsráðandi félags. Og af hverju má ætla að Samfylkingin meini ekkert með þessu, að í raun telji hún slíkt bann ekki skerða tjáningarfrelsi? Jú, það má ráða af því að Samfylkingin hefur jafnframt sagt að hún vilji tryggja „fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla“. En ef það, að banna markaðsráðandi fyrirtækjum að eiga meira en eitthvert tiltekið hámark, til dæmis 5 %, 15 % eða 25 % er skerðing á tjáningarfrelsi eigenda þeirra, þá er „sjálfstæði ritstjórnar“ einnig skerðing á tjáningarfrelsi þeirra. „Tjáningin“ er ekki fyrst og fremst sú að eiga fjölmiðilinn, heldur að hafa áhrif á hvað birtist þar. Ef ritstjórnin er sjálfstæð, eigandinn hefur ekki áhrif á það hvað birtist og hvað ekki, þá er fjölmiðillinn ekki tjáning eigandans. Ef ritstjóri, fréttastjóri eða annar slíkur yfirmaður á fjölmiðli, getur neitað öllum óskum eiganda um birtingu á efni, þá er tjáningarfrelsi eigandans ekkert þar. Þeir sem á annað borð eru fylgjandi reglum um „sjálfstæði ritstjórnar“ – og það er Vefþjóðviljinn ekki – þeir geta varla talið að það sé spurning um tjáningarfrelsi að mega eiga ótakmarkaðan hlut í fyrirtæki. Öðru máli kann að gegna um þá sem vilja engar reglur um „ritstjórnarlegt sjálfstæði“. Þeir geta vel verið þeirrar skoðunar að lög samkvæmt fjölmiðlafrumvarpinu skertu tjáningarfrelsi með óleyfilegum hætti.
Hinir og þessir tala mikið um það að fyrirliggjandi fjölmiðlafrumvarp stangist á við bráðum allar greinar stjórnarskrárinnar og þess vegna eigi ekki að samþykkja frumvarpið. Nú er auðvitað sjálfsagt af alþingi að reyna að forðast það að samþykkja lög sem í einhverjum greinum ganga gegn stjórnarskrárákvæði. En það vill svo til, að frumvarpið á ekki að taka gildi fyrr en eftir rúm tvö ár og allir aðilar ættu því að hafa nægan tíma til að bera sig upp við dómstóla vegna þess sem þeir telja ekki standast. Þetta er ekki eins og einkadansbannið, svo dæmi sé tekið, sem tók gildi þegar í stað. Ef að það er í raun svo, að tiltekin ákvæði frumvarpsins stangist að mati dómstóla á við stjórnarskrá, þá munu dómstólar ekki beita þeim. Ef marka má stóryrðin sem fjölmiðlar birta sem æsifregnir fyrsta stundarfjórðung hvers fréttatíma þá er ekki minnsti vafi á að lög samkvæmt frumvarpinu myndu brjóta næstum öll hugsanleg stjórnarskrárákvæði, sáttmála og hver veit ekki hvað – og hvað er þá að óttast? Þegar lögin fara ekki að hafa áhrif fyrr en eftir rúm tvö ár, þá getur það varla verið stjórnarskráin sem í raun veldur þessum hita. Hitinn er hins vegar skiljanlegri ef menn halda í raun að lagafrumvarpið standist einfaldlega stjórnarskrána. Þá verða andstæðingar þess að stöðva málið meðan það er enn í löggjafarþinginu, og ekkert við það að athuga að þeir freisti þess. Og fyrst minnst er á að standast stjórnarskrá þá má geta þess, að ef að ríkið þarf að greiða bætur vegna afturköllunar útvarpsleyfa, þá er það ekki til marks um að stjórnarskrá hafi verið brotin. Stjórnarskráin gerir beinlínis ráð fyrir, með réttu eða röngu, því að það megi skerða eignarrétt ef bætur komi fyrir enda sé skilyrðum um almannaþörf fullnægt, og svo framvegis. Bótagreiðslur eru eðlilegar við slíkar aðstæður og alvanalegar. Þar að auki hefur jafnan verið talið að almenn skerðing eignarréttar sé heimil bótalaust, en það er annað mál og enn verra.
Við þessar hugleiðingar má svo auðvitað bæta skoðun Vefþjóðviljans á máli eins og því sem hér er til umræðu, og yrði það þá sennilega í sjötta sinn á skömmum tíma sem blaðið lýsir henni. Vefþjóðviljinn er andvígur samkeppnisreglum, en fjölmiðlafrumvarpið er tillaga um sérstakar samkeppnisreglur á tilteknu sviði sem löggjafanum þykir þá mikilvægari en önnur. Vefþjóðviljinn vill að hið opinbera forðist allar samkeppnisreglur og blaðið vill enn að samkeppnisstofnun verði lögð niður. Sumir lýsa skoðunum blaðsins sem kröfu um að „frumskógarlögmálið“ gildi, en Vefþjóðviljinn vill hins vegar ekki að svo stöddu slá neinu föstu um það hvaða reglur gilda almennt í frumskógum. Engum þarf samt að koma á óvart þó blað eins og Vefþjóðviljinn sé andvígur fjölmiðlafrumvarpinu. Það er hins vegar andstaða ýmissa annarra, manna og jafnvel heilla stjórnmálaflokka sem allt þar til nýlega hafa gert mikið úr stuðningi sínum við „hertar samkeppnisreglur“, sem er rannsóknarefni.
Og að lokum, fyrst talað var um afstöðu heilla stjórnmálaflokka, hvernig stendur þá á því að tilteknir fjölmiðlar tala í sífellu um að stjórnarþingmenn séu ósjálfstæðir í störfum og greiði atkvæði samkvæmt skipunum einhverra vondra foringja? Hvað með stjórnarandstöðuna? Þar heyrist aðeins ein rödd og þingmenn sem sjálfir hafa lagt fram tillögur um það að „koma í veg fyrir að einn eða fáir sterkir aðilar nái slíkum yfirburðum á markaðnum að tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði sé ógnað“, þeir æmta hvorki né skræmta og enginn spyr þá neins. Ekki hafa fjölmiðlarnir, sem þessa daga tala ekki um neitt nema fjölmiðlafrumvarpið, nokkurn minnsta áhuga á þessum furðulegum og skýringalausum kúvendingum eins og þeim sem blasa við hjá þingmönnum Samfylkingarinnar, flokksins sem fyrir tveimur árum vildi hreinlega færa opinberri stofnun þau tæki sem þyrfti til að skipta fyrirtækinu Baugi upp – ganga þar með að miklum mun lengra en fjölmiðlafrumvarpið gerir.